Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - KA 2-0 | Fyrsti sigur Skagamanna síðan 19. júní

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
ÍA vann sinn fyrsta sigur undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar í kvöld.
ÍA vann sinn fyrsta sigur undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar í kvöld. vísir/vilhelm
ÍA hélt lífi í vonum sínum á að leika áfram í Pepsi deild karla á næsta tímabili með sigri á KA á heimavelli í dag. Steinar Þorsteinsson og Stefán Teitur Þórðarson skoruðu mörk ÍA í 2-0 sigri.

Heimamenn mættu gríðarlega öflugir til leiks, og spiluðu mun betur en þeir hafa gert megnið af sumrinu. Þeir ógnuðu marki KA-manna mikið, þó svo gestirnir hafi kannski verið ívið meira með boltann.

Á 39. mínútu dróg til tíðinda þegar Hrannar Björn Steingrímsson braut á Steinari inni í eigin vítateig og vítaspyrna dæmd. Þórður Þorsteinn Þórðarson steig á punktinn, enn lét Srdjan Rajkovic verja frá sér spyrnuna. Liðin gengu því markalaus til leikhlés.

Seinni hálfleikurinn byrjaði líkt og sá fyrri, með heimamenn mun beittari, og í raun bara líklegir til þess að skora mark. Það gerðist svo á 69. mínútu að Arnar Már Guðjónsson átti skot að marki sem Rajkovic ver út í teiginn. Þar var Stefán Teitur mættur eins og sönnum framherja ber og setti boltann í netið.

Seinna mark ÍA var mjög líkt því fyrra, í þetta skiptið átti Albert Hafsteinsson skot að marki og aftur nær Rajkovic ekki að halda boltanum, Steinar var mættur í teignum fyrstur allra og tvöfaldaði forystu heimamanna.

Dagurinn varð svo enn verri fyrir KA á 90. mínútu leiksins þegar Callum Williams bókstaflega straujar Steinar Þorsteinsson niður á miðjum vallarhelmingi KA, og Helgi Mikael Jónasson gat ekki annað en gefið Williams rauða spjaldið.

Virkilega mikilvægur sigur ÍA í höfn, sem eiga enn tölfræðilegan möguleika á að halda sér í deildinni.

Afhverju vann ÍA?

Barátta. Þeir voru virkilega grimmir og tilbúnir í þetta. Þeir voru mun betri en undirrituð man eftir í langan tíma og áttu þetta fyllilega skilið. Spurning hvort að nýr þjálfari hafi náð að blása einhverju lífi í þá, en þeir spiluðu góðan leik í dag og ógnuðu marki KA mikið.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnar Már Guðjónsson var mjög góður á miðjunni sem og Arnór Snær Guðmundsson í vörninni. Maður leiksins að mati Vísis er þó Steinar Þorsteinsson. Hann fiskaði víti, skoraði mark og fékk mann út af. Einkunnir allra má sjá í flipanum Liðin hér að ofan.

Hvað gekk illa?

Rajkovic gekk illa að halda boltanum. KA-menn voru ekki að spila neitt afbragðs illa í dag, en það má í raun kenna Rajkovic um bæði mörk ÍA. Sérstaklega það seinna, skotið frá Alberti var ekki sérstakt og hefði Rajkovic átt að halda þeim bolta, en missir hann frá sér og þeir ná að skora.

Hvað gerist næst?

Næsta umferð er leikin á fimmtudaginn, 14. september. Þá fara ÍA í Grafarvoginn í fallbaráttuslag gegn Fjölni. KA fá hins vegar topplið Vals í heimsókn til Akureyrar.

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA.vísir/eyþór
Túfa: Óþarfi að reka manninn útaf

„Mikil vonbrigði að tapa leik 2-0. Mér fannst við bara ekki klárir í slagsmálin í dag,“ sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA. „Frá fyrstu mínútu þá fannst mér þeir grimmari, vinna fyrsta og annan bolta alltaf á undan okkur. Fannt við þungir, nema kannski síðasta korterið þegar við vorum komnir upp við vegg.“

„Fengum nokkur færi, en boltinn fór ekki inn. Það var kannski bara of seint.“

Tufegdzic vildi ekki tjá sig neitt um vítaspyrnuna eða rauða spjaldið sem Williams fékk undir lokin. „Ég ver að sjá þetta betur. Hefði viljað að dómarinn hefði aðeins lesið leikinn meira, staðan 2-0 og leikurinn búinn, óþarfi að reka manninn útaf. En þetta er þeirra ákvörðun, við verðum bara að treysta þeim og virða það.“

„Það var ekki það í dag að dómgæslan væri að ráða leiknum. Þeir voru vel stilltir og við vissum nákvæmlega hvernig þessi leikur yrði, að við þyrftum að mæta þeim í baráttu og slagsmál til að nota okkar gæði til að vinna leikinn.“

Mörkin í dag voru frekar klaufaleg og hefðu KA-menn getað varist þeim betur. Túfa vildi þó ekki kenna aðstæðum um. „Hann ver boltann og svo kemur frákast. Ég hefði viljað að okkar varnarmenn kæmu á undan í boltann, ekki sóknarmenn hjá þeim.“

„Erfitt að spila í dag, vindur og blautt, en það er margt sem var að klikka á undan þessu.“

Jón Þór Hauksson tók við sem þjálfari ÍA í ágúst.
Jón Þór: Aldrei of seint

„Virkilega jákvæð frammistaða í dag. Mér fannst við spila virkilega vel, verjast vel, berjast vel. Með ólíkindum að við hefðum ekki náð að skora 2-3 mörk í fyrri hálfleik. Ofboðslega ánægður með karakterinn sem þeir sýndu í dag, eftir að hafa ekki náð þessu marki í fyrri hálfleiknum, þá sýndu þeir virkilegan karakter og héldu áfram,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA eftir sigur sinna manna.

„Fengum fullt af færum í seinni hálfleik líka, þannig ég er mjög ánægður með frammistöðuna í dag.“

ÍA var fyrir leiki dagsins á botni deildarinnar, 9 stigum á eftir ÍBV í 11. sætinu. Þeir saxa á forystuna með sigrinum, en er ekki of seint í rassinn gripið fyrir Skagamenn að reyna að bjarga sér frá falli?

„Aldrei of seint. Við vorum mjög einbeittir á þennan leik í dag. Við vorum ekkert að láta grípa okkur í einhverja stærðfræði eða að rýna of mikið í framhaldið. Við vorum einbeittir að leiknum í dag, að ná í þrjú stig í dag.“

„Við vorum betri í 90 mínútur, alveg frá fyrstu mínútu þá vorum við að spila virkilega vel. Við sköpum okkur færi til að skora fullt af mörkum og mér fannst við einfaldlega betri á öllum sviðum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira