Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: Víkingur R. - Stjarnan 2-2 | Ævar Ingi bjargaði stigi fyrir Stjörnuna

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Guðjón Baldvinsson í baráttu við Halldór Smára Sigurðsson.
Guðjón Baldvinsson í baráttu við Halldór Smára Sigurðsson. vísir/ernir
Víkingur R. og Stjarnan skildu jöfn, 2-2, í jöfnum leik í Víkinni í kvöld. Stjarnan komst yfir snemma leiks með marki Hólmberts eftir góðan undirbúning frá Jóhanni Laxdal.

Víkingur jafnaði þó eftir hálftíma leik er Milos Ozegovic nýtti sér erfiðleika Stjörnunar að hreinsa boltann í burtu og skoraði af stuttu færi.

Víkingur komst svo yfir í upphafi seinni hálfleiks er Arnþór Ingi átti fyrirgjöf sem Haraldur virtist vera að handsama í marki Stjörnunar. Ekki gekk það þó betur en svo að Haraldur og leikmaður Víkings rákust saman og það truflaði Harald það mikið að boltinn endaði í netinu.

Haraldur var mjög ósáttur í leikslok og vildi meina að um brot hefði verið að ræða.

Allt stefndi í sigur Víkings er Ævar Ingi slapp skyndilega inn fyrir vörn heimamanna og jafnaði metin þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Sannkallað flautumark og lokatölur, 2-2 í hörkuleik.

Afhverju lauk leiknum með jafntefli?

Eftir að Víkingur nældi í forystuna dró liðið of aftarlega á völlinn og bauð upp á pressu.

Stjarnan var alls ekki að spila nógu vel í seinni hálfleik til að jafna leikinn en náði þrátt fyrir það að viðhalda pressu enda erfitt fyrir Víkinga að halda boltanum með 9-10 leikmenn inn í vítateig.

Vörnin virtist ætla að halda en stíflan brast á endanum og verður Víkingur að bíta í það súra epli. Og eplið er svo sannarlega súrt því með sigri hefði Víkingur R. stimplað sig endanlega úr fallbaráttunni en þess í stað er liðið einungis fjórum stigum frá fallsæti. Ekki líklegir til að falla en þó svo sannarlega möguleiki.

Jöfnunarmarkið gerir að sama skapi ekkert fyrir Stjörnuna en titilbarátta liðsins náði aldrei almennilegu flugi og er nú algjörlega úr sögunni.

Hverjir stóðu upp úr?

Alex Þór Hauksson var tekinn útaf á 58. mínútu en fram að því hreif hann mig mjög eins og hann hefur hrifið marga í sumar. Sendingarnar hans eru algjört augnakonfekt og er klárt að þessi strákur á bjarta framtíð fyrir höndum.

Arnþór Atli var einnig áberandi og skoraði m.a. annað mark Víkings en eins og staðan er núna er Ívar Örn skráður fyrir markinu en sólin gerði mörgum erfitt fyrir að þekkja menn í sundur sem voru hinum megin á vellinum.

Sem gerir það ansi erfitt að nefna marga sem stóðu upp úr. Það og reyndar sú staðreynd að þrátt fyrir fjögur mörk var leikurinn furðulega bragðdaufur.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Stjörnunar var mjög dapur. Með jafn góðan mannskap í hverri stöðu þá býst maður við betri og skemmtilegri samleik en þess í stað var þetta allt frekar staðnað og ómerkilegt.

Miðað við hvernig Stjarnan spilar og sérstaklega ef þú berð liðið við topplið Vals þá var það alltaf veik von að Stjarnan gæti barist um titilinn til enda. Ég vil sjá liðið í framtíðinni spila betri og skemmtilegri fótbolta. Þeir hafa hópinn og mannskapinn í það.

Þeir hreinlega eiga að gera betur.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fær Víking Ó. í heimsókn á Samsung teppið í Garðabænum á meðan Víkingur R. fær FH í heimsókn.

Bæði Víkings liðin hafa að miklu að keppa. Allavega meira en andstæðingar þeirra og því verður spennandi að sjá hvernig stóru strákarnir í FH og Stjarnan mæta til leiks á fimmtudaginn.

Logi: Best að treysta á sjálfan sig
vísir/ernir
Logi Ólafsson var að vonum svekktur í leikslok eftir að Stjarnan jafnaði á lokamínútum gegn hans mönnum í Víkingi R.

„Það verður ekki mikið verra en þegar þú ert að landa sigri að fá á sig jöfnunarmark í uppbótartíma. Það er mjög svekkjandi.“

Hann segir svekkjandi að tapa stigunum þremur enda hefðu þau líklega endanlega bjargað Víkingi frá falli en fjögur stig skilur á milli Víkings R. og ÍBV sem er í fallsæti.

„Með sigri hefðum verið í mun þægilegri stöðu. Það þarf ekki töluglöggan mann til að sjá að það er ekki langt á milli. Ef liðin fyrir neðan okkur byrja að vinna þá segir það sér sjálft að þá gæti þetta orðið ansi tæpt.“

Hann segir að Víkingur R. sé með örlög sín í eigin höndum og þurfa að treysta á sjálfan sig frekar en að önnur lið geri þeim greiða.

„Ég hef sagt það áður að það er betra að treysta á sjálfan sig í svona stöðu og við verðum bara að safna stigum í næstu leikjum.“

Jöfnunarmark Stjörnunar kom á lokamínútu leiksins en Logi telur að sínir menn hafi fallið of langt til baka of snemma.

„Við féllum í þá gryfju að verja sigurinn og þessi þrjú stig alltof snemma og þegar boltinn er oft inn í eða í kringum teiginn okkar þá gæti hann á endanum fallið fyrir þá og það gerðist því miður á endanum.“

Rúnar Páll: Halli vill meina að þetta hafi verið brot
„Haraldur er ekki vanur að missa boltann frá sér. Ég sá þetta ekki vel en Halli vill meina að brotið hafi verð á sér. Ég trúi honum alveg,“ sagði Rúnar Páll, þjálfari Stjörnunar, um hið umdeilda annað mark Víkings R. en skiptar skoðanir eru á um hvort brot hafi verið að ræða eða ekki.

Hann viðurkenndi að titilbaráttan væri líklega búinn og að jöfnunarmarkið dramatíska hefði kannski ekki gert mikið fyrir Stjörnuna.

„Við þurftum að fá þrjú stig hérna í dag en við náum þeim bara á fimmtudaginn. Víkingur Ó. eru alltaf erfiðir. Skipulagðir og spila agaðan leik. Við þurfum að vera klókir. Við erum góðir á heimavelli og ætlum okkur að halda því áfram.“

Haraldur pirraður: Fyrst boðaður í viðtal núna
vísir/ernir
Haraldur Björnsson, markmaður Stjörnunnar, var ekkert að skafa af hlutunum í leikslok er blaðamaður Vísis boðaði hann í viðtal.

„Ég ætla bara að byrja á að þakka þér fyrir að boða mig í viðtal. Það er gaman að komast í viðtal hjá bara einhverjum fjölmiðli í fyrsta sinn í sumar. Veit ekki hvað ég er búinn að spila marga leiki í sumar, fá á mig lítið að mörkum og fyrst núna er ég kallaður í viðtal,“ sagði Haraldur sem var ósáttur við að vera fyrst kallaður núna í viðtal og þá ekki vegna frammistöðu sinnar heldur vegna seinna mark Víkings þar sem hann vildi meina að brotið hefði verið á sér.

Arnþór Ingi átti þá fyrirgjöf sem Haraldur náði að handsama en þá rakst hann og leikmaður Víkings saman sem olli því að Haraldur missti boltann inn. Hann kvaðst vitaskuld vera mjög ósáttur.

„Já ég er töluvert ósáttur. Gunni (Gunnar Jarl, dómari leiksins) segir við mig eftir leikinn að maðurinn snerti aldrei boltann heldur fer einungis upp í hendurnar á mér. Ef ég er að bakka og sé ekki hvað er fyrir aftan mig og svo skyndilega fer maður í hliðinna á mér og olnbogan minn og hvað á ég að gera?“

Oft er sagt að markmenn séu of verndaðir og því margir sem fagna því þegar dómari lætur leikinn halda áfram í stað þess að dæma aukaspyrnu í svipuðum atvikum en er Haraldur sammála af því?

„Já og nei. Við erum að spila íþótt sem er allt öðruvísi en hinir. Það gilda aðrar reglur og við erum í öðruvísi búning ef þú varst ekki búinn að taka eftir því. Við erum líka með hanska. Auðvitað þarf að verja menn sem eru að spila allt aðra íþrótt en hinir.“

Hann bætti við að lokum að hann væri ekki kvartandi ef að um leikmann væri að ræða sem væri að berjast um boltann á sömu forsendum og hann.

„Ef að það væri einhver annar að fara upp í sama bolta með hanska eins og ég, gott og vel.“

En var flautumarki Stjörnunnar einhver sárabót?

„Auðvitað ekki. Þetta gerir ekki neitt fyrir okkur og mótið,“ sagði Haraldur augljóslega hundfúll.

Ívar: Sólin greinilega að blinda menn
Ívar Örn, leikmaður Víkings, kvaðst vera svekktur í leikslok enda erfitt að fá jöfnunarmark í andlitið á lokamínútum leiksins.

„Já, þetta var mjög sárt. Þessi þrjú stig hefðu verið mjög mikilvæg fyrir þannig það var mjög sárt að sjá boltann leka inn þarna í lokin.“

Ívar Atli skoraði annað mark Víkings R. sem var mjög umdeilt. Eða það hélt undirritaður þangað til að Ívar leiðrétti það.

„Sólin er greinilega að blinda fólk hérna í Víkinni því ég skoraði þetta mark ekki. Arnþór átti fyrirgjöfina og hún var greinilega svona glæsileg með vinstri að það halda allir að þetta hafi verið ég. Þið megið samt alveg skrá þetta á mig sko,“ sagði Ívar hlæjandi og bætti við að hann taldi ekki að um brot hefði verið að ræða.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Víkingsvelli í kvöld og tók myndirnar hér að neðan.



Ívar Örn í baráttu við Brynjar Gauta Guðjónsson.vísir/ernir
Logi gefur skipanir á hliðarlínunni.vísir/ernir
Haraldur var ósáttur í leikslok.vísir/ernir
Rúnar Páll á hliðarlínunni.vísir/ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira