Golf

Ólafía í fjórða sæti fyrir lokahringinn eftir glæsilega spilamennsku

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafía Þórunn.
Ólafía Þórunn. Vísir/Getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir átti frábæran dag á Indy Women mótinu í golfi. Hún lauk leik á öðrum keppnisdegi á 4 undir pari og samtals því á 9 höggum undir pari þegar mótið er hálfnað.

Fyrir daginn í dag var Ólafía í níunda sæti, en þegar hún hefur lokið öllum átján holum dagsins er hún í 4.-6. sæti. Engin af efstu 20 konum hefur þó lokið leik í dag, að Ólafíu undanskildri, og því gæti staða hennar breyst.

Ólafía lék fyrri 9 holurnar á einu höggi undir pari. Nú er hins vegar búið að breyta skorspjaldi Ólafíu og er hún skráð á pari á fyrstu holunni en ekki skolla, svo hún fór því fyrstu níu á tveimur höggum undir pari.

Hún byrjaði seinni níu með trompi, fékk fugl á 10. og 11. holu. Eftir fylgdu tvö pör og svo fimmti fugl dagsins á 14. holu. Næstu þrjár holur voru á pari, en síðasta holan setti smá fýlusvip á frábæran dag Ólafíu því þar fékk hún skolla.

Niðurskurðarlínan er áætluð við eitt högg undir pari, svo Ólafía er því örugg áfram á mótinu. Aðeins þrír hringir eru leiknir á mótinu í Indiana og fer því lokadagurinn fram á morgun.

Miðað við stöðuna þegar þessi frétt er skrifuð fer Ólafía upp í 81. sæti peningalista LPGA mótaraðarinnar. 100 efstu kylfingar listans fá áframhaldandi sæti á mótaröðinni á næsta ári. Ólafía var fyrir mótið í 101. sæti listans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×