Innlent

Kjarnorkusprengingin í Norður-Kóreu mældist á Íslandi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Kjarnorkusprenging Norður-Kóreumanna um síðustu helgi greindist á jarðskjálftamælum hér á landi. Mælarnir námu skjálftann best á Norðurlandi, en annars mældist hann víðast hvar á landinu.

Um var að ræða vetnissprengju sem sprengd var neðanjarðar í norðurhluta Norður-Kóreu síðastliðinn sunnudag. Sprengjan er sú öflugasta sem Norður-Kóreumenn hafa sprengt hingað til eða um það bill fimmtíu til hundrað kílótonn. Til samanburðar voru sprengjurnar í Hiroshima og Nagasaki um fimmtán til tuttugu kílótonn.

Ólafur G. Flóvenz, jarðeðlisfræðingur og forstjóri Íslenskra orkurannsókna.
Sprengingunni fylgdi jarðskjálfti upp á 6,3 að stærð, en jarðskjálftamælar víðast hvar í heiminum námu skjálftann.

„Þar á meðal kemur þetta fram í jarðskjálftamælum á Íslandi. Bæði á þeim mælum sem Íslenskar orkurannsóknir reka fyrir sérhæfðar jarðhitarannsóknir á hitakerfum landsins og að sjálfsögðu Veðurstofu Íslands sem rekur kerfi jarðskjálftamæla um allt land,“ segir Ólafur.

Mælarnir greindu skjálftana laust fyrir klukkan fjögur aðfaranótt síðasta sunnudags. Merkið var hvað skýrast á Norðurlandi, en jarðskjálftamælar á Suðvesturlandinu námu skjálftann ekki eins skýrt.

Skjálftinn sást greinilega á jarðskjálftamælum.
Ólafur segir ekki hættu á að þessi skjálfti hafi einhverjar afleiðingar í för með sér hér á landi.

„Þetta hefur engar afleiðingar langt í burtu frá skjálftaupptökunum. En þetta getur auðvitað valdið tjóni nálægt sprengistaðnum. Það er verið að sprengja þessar sprengjur í borholum og verður hætta á því að ef sprengingin er of mikil miðað við þungann á jarðlagasúlunni sem er ofan á henni þá getur lekið út geislavirkni, þó ég viti ekki til þess að þess hafi verið vart núna," segir hann.

Þá segir hann Mexíkóskjálftann í nótt einnig hafa mælst hér landi, enda hafi hann bæði verið stærri og nær Íslandi.


Tengdar fréttir

Telja nýtt eldflaugaskot líklegt

Yfirvöld Suður-Kóreu fylgjast nú náið með nágrönnum sínum i norðri og telja líklegt að til standi að gera frekari eldflaugatilraunir í Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×