Innlent

Kjarnorkusprengingin í Norður-Kóreu mældist á Íslandi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar

Kjarnorkusprenging Norður-Kóreumanna um síðustu helgi greindist á jarðskjálftamælum hér á landi. Mælarnir námu skjálftann best á Norðurlandi, en annars mældist hann víðast hvar á landinu.

Um var að ræða vetnissprengju sem sprengd var neðanjarðar í norðurhluta Norður-Kóreu síðastliðinn sunnudag. Sprengjan er sú öflugasta sem Norður-Kóreumenn hafa sprengt hingað til eða um það bill fimmtíu til hundrað kílótonn. Til samanburðar voru sprengjurnar í Hiroshima og Nagasaki um fimmtán til tuttugu kílótonn.

Ólafur G. Flóvenz, jarðeðlisfræðingur og forstjóri Íslenskra orkurannsókna.

Sprengingunni fylgdi jarðskjálfti upp á 6,3 að stærð, en jarðskjálftamælar víðast hvar í heiminum námu skjálftann.

„Þar á meðal kemur þetta fram í jarðskjálftamælum á Íslandi. Bæði á þeim mælum sem Íslenskar orkurannsóknir reka fyrir sérhæfðar jarðhitarannsóknir á hitakerfum landsins og að sjálfsögðu Veðurstofu Íslands sem rekur kerfi jarðskjálftamæla um allt land,“ segir Ólafur.

Mælarnir greindu skjálftana laust fyrir klukkan fjögur aðfaranótt síðasta sunnudags. Merkið var hvað skýrast á Norðurlandi, en jarðskjálftamælar á Suðvesturlandinu námu skjálftann ekki eins skýrt.

Skjálftinn sást greinilega á jarðskjálftamælum.

Ólafur segir ekki hættu á að þessi skjálfti hafi einhverjar afleiðingar í för með sér hér á landi.

„Þetta hefur engar afleiðingar langt í burtu frá skjálftaupptökunum. En þetta getur auðvitað valdið tjóni nálægt sprengistaðnum. Það er verið að sprengja þessar sprengjur í borholum og verður hætta á því að ef sprengingin er of mikil miðað við þungann á jarðlagasúlunni sem er ofan á henni þá getur lekið út geislavirkni, þó ég viti ekki til þess að þess hafi verið vart núna," segir hann.

Þá segir hann Mexíkóskjálftann í nótt einnig hafa mælst hér landi, enda hafi hann bæði verið stærri og nær Íslandi.


Tengdar fréttir

Telja nýtt eldflaugaskot líklegt

Yfirvöld Suður-Kóreu fylgjast nú náið með nágrönnum sínum i norðri og telja líklegt að til standi að gera frekari eldflaugatilraunir í Norður-Kóreu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira