Lífið

Fór á íbúfen kúrinn

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Kærastan mín sagði mér á einum tímapunkti að ég væri bara korter í alvarlegt þunglyndi, segir Steindi sem ætlar ekki að láta það gerast aftur að vera lengi frá dóttur sinni.
Kærastan mín sagði mér á einum tímapunkti að ég væri bara korter í alvarlegt þunglyndi, segir Steindi sem ætlar ekki að láta það gerast aftur að vera lengi frá dóttur sinni. Visir/Stefán

Steindi er einn þekktasti gamanleikari þjóðarinnar. Ferillinn spannar áratug. En upp á síðkastið hefur hann verið að færa sig út fyrir þægindarammann. Úr gríninu sem er honum eðlislægt, kannski meira að segja náðargáfa. Yfir í dramatík. Og hann lofar góðu í hlutverki ungs manns sem missir tökin í kvikmyndinni Undir trénu, í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar.

„Það var slegist um þetta hlutverk. Haddi bauð mér að koma í prufu. Ég hef ekkert oft farið í prufur og finnst það óþægilegt. En Haddi hafði eitthvert sérstakt lag á mér og mér gekk vel,“ segir Steindi. Honum er létt eftir hátíðarfrumsýningu myndarinnar sem var í vikunni í Háskólabíó. Eftir sýningu myndarinnar risu gestir úr sætum og fögnuðu með lófataki.

Brynjar Snær

Sjálfsgagnrýninn
Fyrsta kvikmynd Hafsteins Gunnars, Á annan veg, kom út árið 2011. Myndin hlaut viðurkenningar og verðlaun og var endurgerð í Bandaríkjunum undir heitinu Prince Avalance. Þá sendi Hafsteinn Gunnar frá sér París norðursins árið 2014 sem einnig naut mikillar velgengni.

„Haddi er magnaður leikstjóri. Hann hafði mikla þolinmæði fyrir mér. Ég hef alltaf verið mjög efins og fæ verkefni á heilann. Eftir hvern tökudag fór ég yfir daginn á leiðinni heim í Mosfellsbæ. Mér finnst gott að hafa þennan tíma til að afgreiða mál dagsins meðan ég keyri. En ég á það til að verða sjálfsgagnrýninn og rífa mig niður.

Ég er auðvitað að vinna í þessu. En ég hringdi í Hadda að ég held alla tökudaga þegar ég var kominn heim. Það er merkilegt að hann hafi nennt þessu og haldið andliti,“ segir Steindi og hlær að sjálfum sér.

Brynjar Snær

„Haddi er góður leikstjóri, hann fer í gegnum hlutina. Æfir vel fyrir tökurnar, fyrst í samlestri og svo á tökustað. Hann fyllir meira að segja efins mann eins og mig sjálfsöryggi. Hann fullvissaði mig í hverju símtali um að ég væri að gera rétt. Það er hans helsti kostur. En svo sagði hann mér seinna að hann sjálfur hefði verið meira og minna hræddur allt ferlið um sín störf. Svona erum við öll sem störfum í þessum bransa. Við erum hrædd. Það er vel hægt að skilja. Ef þú setur fram eitthvað sem þér þykir vænt um þá ertu ekki rólegur yfir því eða kærulaus.

Ég held að ef þú ert óttalaus ættir þú kannski að snúa þér að einhverju öðru. Þú þarft að vera þjáður í því sem þú ert að gera. Annars er enginn drifkraftur og þú spyrð þig ekki mikilvægra spurninga,“ segir Steindi.

Með tuttugu „sálfræðinga“
Steindi leikur ungan mann sem lendir í forræðisdeilu eftir að kærasta hans og barnsmóðir kemur að honum að horfa á kynlífsmyndband. Hann missir tökin og flytur heim til foreldra sinna sem standa í nágrannaerjum vegna trés í garðinum. Foreldrana leika þau Sigurður Sigurjónsson og Edda Björgvinsdóttir.

„Undir niðri er mikill harmur sem ekkert er rætt um. Fólk er ekki á staðnum og allra síst Atli sem ég leik. Það að ræða ekki málin og takast ekki á við þau er alltaf til ills. Atli missir algjörlega þráðinn, hann verður fjarrænn og það springur allt í háaloft. Hjá honum og líka í kringum hann. Hann verður þessi lúser sem stendur í forræðisdeilu. Ég er allt öðruvísi gerður. Ég held að ég tali nærri því allan sólarhringinn,“ segir hann og glottir.

„Ég er mjög opinn og ræði allt. Og svo finnst mér ég eiga svo góða vini og vinkonur að, eins og ég sé með svona tuttugu sálfræðinga í kringum mig,“ segir Steindi sem samt fann fyrir því að verða svolítið fjarrænn og þungur í æfingum og tökuferlinu fyrir myndina.

Saknaði dótturinnar
Steindi er í sambúð með Sigrúnu Sigurðardóttur og eiga þau eina dóttur, Ronju Nótt, sem nú er þriggja ára.

„Ég sá dóttur mína lítið í æfingaferlinu og tökunum. Hún var sofandi þegar ég fór út á morgnana og ég kom ekki aftur fyrr en hún var farin í háttinn. Ég var miður mín og saknaði hennar, þetta lagðist þungt á mig. Hún var svo lítil, bara tveggja ára, og á þessum tíma í lífi barna gerist svo margt. Mér fannst ég bara missa ansi stóran hluta úr lífi hennar. Kærastan mín sagði mér á einum tímapunkti að ég væri bara korter í alvarlegt þunglyndi. Það er vont að koma sér í svona stöðu.

Ég var feginn þegar ég losnaði úr henni og gat farið að sinna dóttur minni aftur. Ég reyni svo að láta þetta ekki gerast aftur. Þetta er það sem skiptir máli. Við erum miklir vinir, ég og Ronja Nótt. Ég er með reglu núna sem mér finnst að allir í mínum bransa ættu að hafa. Ég tek vinnuna ekki með mér heim. Ég labba aldrei inn á heimilið í símanum. Ég klára það sem ég þarf að ræða úti í bíl. Svo geng ég inn og hef athyglina á fjölskyldunni.“

Queen of grín, segir Steindi um Eddu Björgvinsdóttur. Brynjar Snær

Og svo fer bara allt í bull
Steindi á sjálfur gott bakland. Foreldrar hans eru Sigríður Edda Valgeirsdóttir og Steinþór Steinþórsson.

„Ég er mikill mömmu- og pabbastrákur. Þau voru mætt allra fyrst á frumsýninguna og hreinlega titruðu af stolti. Ég á gott bakland og veit hvað þetta skiptir miklu máli. Ég held að hlutirnir fari síður úr skorðum ef það er traust í fjölskyldunni. Það er fólk í kringum mig sem hefur staðið í erfiðum forræðisdeilum. Vinir mínir og gott fólk sem missir tökin. Það slettist eitthvað upp á og svo missir fólk tökin með glötuðum afleiðingum. Svo réttist þetta af á endanum. Þetta er algengt. Og deilur af alls kyns tagi, þar sem fólk nær hreinlega ekki almennilega tengslum. Það er haldið einhverjum doða og vanlíðan, veit ekki almennilega hvernig það á að ræða hlutina, sækir sér ef til vill ekki hjálp og svo fer bara allt í bull.“

Með hetjunum sínum
Það má segja að leikarar myndarinnar séu góður hluti landsliðsins í gríni. Steindi lærði mikið í ferlinu.
„Þetta eru hetjurnar mínar og mér fannst ég vera með landsliðinu. Ég leit oft í kringum mig á setti og varð bara agalega stoltur en líka setti ég pressu á mig og hugsaði: Vá, það er bara núna eða ekki með mig. Þau búa yfir mikilli reynslu og það sem ég tek með mér í næsta verkefni er að skilja tilfinningarnar eftir á setti. Þau ráða svo vel við ferlið. Ég lærði að grufla í hlutum, opna gömul sár til að opna á tilfinningar. En ég tók það stundum með mér heim,“ segir hann.

Brynjar Snær

„Ég kýs að kalla Eddu queen of grín og ég dáðist að Sigga í ferlinu, hann er svo agaður. Þetta er tækni og skilningur, flæði sem mér fannst ómetanlegt að komast í tæri við. Ég hef verið upptekinn af þessum hetjum mínum frá því ég var barn. Frá því ég var átta ára gamall voru tvær myndir oftast í tækinu, Stella í orlofi sem þau leika bæði í, Siggi og Edda, og Beetlejuice. Ég kann Stellu í orlofi nánast utan að. Ég er alinn upp við þeirra gamanleik en ég hef auðvitað ætlað mér að starfa við þetta frá því ég var barn,“ segir Steindi en eins og margir þekkja varð hann fyrst þekktur ungur af YouTube myndböndum sem rifu í hláturtaugarnar.

Íbúfenkúrinn!
Undirbúningur fyrir kynlífssenu í myndinni var ekki áreynslulaus. Steindi þurfti að létta sig töluvert fyrir gerð myndbandsins og notaði heldur óhefðbundna aðferð sem hann mælir ekki með. Fyrir nokkurn mann!

„Sú sena á að gerast nokkrum árum áður. Ég fékk mánuð til þess að taka upp þau skot. Ég reyndi að missa eins mikið og ég gat á skömmum tíma. Ég var of upptekinn til að fara í ræktina þannig að ég át bara hádegismat og svo tók ég bara verkjalyf þegar ég var svangur. Þetta er hrikalega óhollt og ég mæli ekki með þessu. Við kölluðum þetta íbúfenkúrinn. Þetta er fjörutíu sekúndna sena og ég rétt svo sést í speglaskoti. Ég grínaðist í Hadda vegna þess, hvort það mætti ekki sjást aðeins meira í mig eftir alla þessa fyrirhöfn. En glöggir áhorfendur munu sjá muninn.“

Steindi á það greinilega til að leggja svona hart að sér. Í sumar hljóp hann hálfmaraþon án þess að hafa reimað á sig hlaupaskóna að ráði.

Brynjar Snær

Ævistarfið
Steindi tók einnig að sér aukahlutverk í heimildarmyndinni Out of Thin Air á síðasta ári, sem fjallar um Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Myndin fór í sýningar á Netflix í sumar.

Gamni og gríni getur hann ekki hugsað sér að sleppa. Þar liggur rauði þráðurinn. En hann getur hugsað sér að taka að sér fleiri hlutverk utan gamanleiksins og segist vera kominn með sjálfstraust til að hlýða meira á eigin rödd. Hann er hættur að láta aðra segja sér hvað hann er.

„Það hefur verið erfitt fyrir mig að fá viðurkenningu á því hreinlega að ég sé listamaður. Leikari. Þrátt fyrir að það sé ævistarfið. Þetta starf valdi mig, allt sem ég geri frá því ég er lítill drengur snýst um þessa ástríðu, að leika, skrifa, framleiða. En þrátt fyrir það þá hafa aðrir stundum viljað segja mér að þetta sé ég ekki. Af því að ég er ólærður. Eitt sinn fór ég í blaðaviðtal og blaðamaðurinn neitaði að titla mig leikara af því að ég er ekki lærður. Hann stakk upp á orðinu skemmtikraftur. Ég vil vera tekinn alvarlega. Ég man að Jón Gnarr talaði um svipaða baráttu fyrir viðurkenningu. Mér fannst gott að vita af hans baráttu. En sjálfstraustið er komið núna. Ég læt engan segja mér hvað ég er. Ég fór erfiðari leiðina. En ég fór hana,“ segir hann.

„En ég er samt auðmjúkur. Ég hugsa vel um það sem ég er að gera. Ég hlusta á aðra og læri. En sem betur fer þá er ég sterkari, ég er hættur að leita eftir gagnrýni og hlusta betur á mína eigin rödd. Áður las ég öll komment, við YouTube myndbönd og hvað sem er. Ef ég sá eitt neikvætt komment vildi ég hitta þá manneskju og sannfæra hana um mitt eigið ágæti. Ég vildi hafa alla góða. Einhver tólf ára strákur úti í bæ hélt mér í einhverri angist, það er bara ógeðslega fyndið. En kannski er ég ekki ekkert laus við þetta. Kannski mun ég skoða kommentin undir þessu viðtali og engjast yfir þeim.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira