Viðskipti innlent

Deilur um vörumerkið Icelandic vestanhafs

Haraldur Guðmundsson skrifar
Icelandic Fish & Chips rekur veitingastað við Tryggvagötu og annan á Manhattan.
Icelandic Fish & Chips rekur veitingastað við Tryggvagötu og annan á Manhattan. vísir/ernir
Sjávarútvegsfyrirtækið Icelandic og eigendur Icelandic Fish & Chips eiga í deilu vegna umsóknar veitingastaðarins um skráningu á vörumerki sínu í Bandaríkjunum. Eigendur staðarins vilja skrá vörumerkið Icelandic Fish & Chips þar í landi en Icelandic hefur mótmælt því.

„Það kom upp flöggun hjá lögmannsstofu okkar í Bandaríkjunum að þau væru að reyna að skrá vörumerkið Icelandic Fish & Chips og þannig byrjuðu okkar samskipti. Við höfum alltaf staðið vörð um okkar vörumerki og í þeirra tilfelli teygðum við okkur að mínu mati mjög langt og vorum boðin og búin til samstarfs við þau,“ segir Sara Lind Þrúðardóttir, framkvæmdastjóri vörumerkja- og kynningarsviðs Icelandic, áður Icelandic Group.

Icelandic Fish & Chips rekur veitingastað við Tryggvagötu í miðbæ Reykjavíkur og opnaði annan í byrjun júlí á Manhattan í New York. Fyrirtækið hafði þá sótt um skráningu vörumerkisins í Bandaríkjunum. Staðurinn hefur fengið góðar viðtökur og er stefnt að opnun fleiri veitingastaða fyrirtækisins þar í landi á næstu árum.

Erna Kaaber
„Mér er algjörlega ofboðið að fyrirtæki í eigu íslenskra lífeyrissjóða, sem ég þarf að borga til ásamt mínu starfsfólki, sé á þeirri vegferð að einkavæða landsheiti okkar Íslendinga og lýsingarheiti landsins. Ef ríkisstjórnin ætlar að sitja hjá og horfa á þetta gerast, án þess að hreyfa legg né lið, þá veit ég ekki í hverju þeirra virðing er fólgin,“ segir Erna Guðrún Kaaber, framkvæmdastjóri Icelandic Fish & Chips.

Icelandic, sem er í eigu Framtakssjóðs Íslands, en eigendahópur hans samanstendur af fimmtán lífeyrissjóðum og Landsbankanum, gerði árið 2011 sérleyfissamning við bandaríska matvælafyrirtækið High Liner Foods. Samið var um sölu á frosnum fiski vestanhafs undir vörumerkinu Icelandic Seafood og út næsta ár. Vörumerkið var fyrst skráð í Bandaríkjunum árið 1973 og heldur Icelandic utan um markaðssetningu þess.

„High Liner selur afurðir undir vörumerkinu fyrir yfir hundrað milljónir dollara á ári. Það hefur áhuga á að endurnýja samninginn en starfsemi Icelandic til framtíðar mun felast í samstarfi við framleiðendur sem vilja selja hágæða íslenskar afurðir undir þessu sterka vörumerki. Þess þá heldur viljum við tryggja okkar rétt og standa vörð um það,“ segir Sara Lind og heldur áfram:

„Okkur finnst frábært þegar það er verið að kynna íslenskan fisk og það sem þau eru að gera. Við buðum þeim að nota vörumerkið í samstarfi við okkur en getum ekki fallist á að þau skrái vörumerkið enda er það í okkar eigu. Þau höfnuðu öllum tillögum okkar og þar stendur málið núna,“ segir Sara. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×