Innlent

Minni ánægja með sumarveðrið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Blíðan náði líklega hámarki í júlí. Fullt var á tjaldstæðinu Hamri í Kjarnaskógi fjórðu helgina í júlí.
Blíðan náði líklega hámarki í júlí. Fullt var á tjaldstæðinu Hamri í Kjarnaskógi fjórðu helgina í júlí. vísir/ásgeir

Heldur færri Íslendingar voru ánægðir með sumarveðrið í ár á Íslandi heldur en síðasta sumar, eða 70%. Eins sögðust 86% Íslendinga ánægðir með sumarfríið sitt í könnun MMR sem er ekki mikil breyting frá árinu áður.

Síðasta sumar mældist ánægjan með sumarveðrið 94% og þá sögðust 89% Íslendinga vera ánægðir með sumarrfríið sitt.

Þegar ánægjan með sumarveðrið var skoðuð eftir landshlutum kom í ljós að íbúar á Norðvestur- og Vesturlandi voru ánægðastir með veðrið í sumar, eða 83,5%. Þar á eftir voru íbúar á Norðaustur- og Austurlandi, þar sem 82,6% íbúa voru ánægðir með sumarveðrið. 70,1% íbúa Reykjavíkur voru svo ánægðir með veðrið á Íslandi í sumar. Þeir sem voru síst ánægðir voru íbúar í nágrenni Reykjavíkur (64,4%) og Suðurlands (59,1%).

Þróun á afstöðu Íslendinga frá árinu 2010 til 2016 sýndi að ánægja með sumarveðrið var yfirburða mikil árin 2010 og 2016, þegar 95% (árið 2010) og 94% (árið 2016) sögðust vera ánægðir með veðrið það sumarið. Lægst var þó ánægjan árið 2013 en þá voru einungis 44% Íslendinga ánægðir með veðrið.

Þrátt fyrir mikla sveiflu í ánægju á sumarveðri á milli ára þá hefur ánægja fólks með sumarfríið sitt haldist nokkuð stöðug. Frá því að mælingar hófust árið 2010 hefur ánægja Íslendinga með sumarfríið sitt flöktað á bilinu 86% til 91%.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira