Lífið

Umbylti lífi sínu og flutti í sveitina

Elín Albertsdóttir skrifar
Guðrún Bjarnadóttir hefur helgað líf sitt kennslu í uppáhaldsfögunum sínum; jurtalitun, grasafræði og plöntugreiningu.
Guðrún Bjarnadóttir hefur helgað líf sitt kennslu í uppáhaldsfögunum sínum; jurtalitun, grasafræði og plöntugreiningu.
Guðrún Bjarnadóttir náttúrufræðingur heldur úti vinsælum námskeiðum um jurtalitun við Endurmenntunardeild LbhÍ á Hvanneyri. Hún kennir jurtalitun sem byggð er á aldagömlum aðferðum með plöntum úr náttúrunni.

Guðrún hefur ekki farið hefðbundna leið í lífinu. Eftir að hafa starfað í fimm ár sem útsendingarstjóri frétta á Stöð 2 dreif hún sig í nám til Bandaríkjanna og lærði dýrahjúkrun. Þaðan lá leiðin í Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún bar saman nýtingu á villtum gróðri í Noregi og á Bretlandseyjum við Ísland. „Ég vildi vita hvort landnámsmennirnir hefðu komið með þekkinguna með sér hingað til lands eða fundið hana upp hér. Í grúski mínu fann ég heimildir um jurtalitun til forna, setti upp pott og fór að prófa mig áfram eftir þessum gömlu heimildum. Það var talsvert bras í fyrstu en örlitlu síðar kom út bók eftir Sigrúnu Helgadóttur og Þorgerði Hlöðversdóttur, Foldarskart í ull og fat – Jurtalitun, sem hefði hálpað mér heilmikið ef hún hefði komið út aðeins fyrr en hún staðfesti þekkinguna sem ég hafði fundið út með Krísuvíkurleiðinni.“

Leitað til fornaldar

Núna hefur Guðrún öðlast mikla færni í og þekkingu á jurtalitun og námskeiðin hennar hafa verið afar vinsæl hjá Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Guðrún segir að hún kenni aðferðina við litun frá upphafi til enda. „Við undirbúum bandið, tínum jurtir, litum, litbreytum með efnum, þurrkum og svo er frágangur,“ útskýrir hún. „Þetta er hálfs dags námskeið. Við litum alltaf íslenska ull, einband, og notum rabarbarablöð, rabarbararót, lúpínurót, lúpínublóm, litunarskóf og fleiri jurtir til litunar. Einnig notum við kaktuslús sem er erlent skordýr og gefur bleikan lit. Sumar jurtirnar voru notaðar alveg eins við landnám. Við fáum út ýmsa liti, til dæmis notum við mikið gulan lit sem hægt er að breyta með efnafræði. Ef við skolum gult band með kopar og salmíaki verður það grænt. Í gamla daga notuðu menn hland í staðinn fyrir salmíak og koparpotta. Þótt við notum aðferðir frá því í gamla daga þá nýtum við nútíma tækni eins og rafmagn og salmíak. Við þurfum ekki að pissa í skálar en ég hef engu að síður notað kúahland en salmíakið er þó mun þægilegra í notkun,“ segir Guðrún.

Vaskar konur á námskeiði í jurtalitun. Þær eru allar nemendur í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Það er gaman að sjá hvernig litirnar verða til.
„Námskeiðið gengur í raun út á að við vinnum saman litunarferlið frá upphafi til enda, spjöllum saman og skemmtum okkur þessa dagstund. Ég læt nemendurna gera allt sjálfa til að fá sem mesta reynslu og tilfinningu fyrir ferlinu. Þessi dagstund er svolítið hraðsoðin og lífleg en tilgangurinn er að komast yfir hræðsluna við að setja í fyrsta pottinn, sýna fram á að þetta er ekki hættulegt og ekki flókið, bara skemmtileg tilraunastarfsemi. Það eru ekki til nein mistök, bara ólíkir litir.“

Áhugi hjá bóndakonum

Guðrún segir að mikill áhugi sé meðal kvenna í dreifbýli á að læra jurtalitun. „Þetta eru konur sem eru að vinna með ullina og nýta náttúruna. Það koma líka konur af höfuðborgarsvæðinu en þær eru fleiri úr sveitum. Ég vildi gjarnan sjá fleiri karla á námskeiðunum,“ segir Guðrún en hún tekur einnig á móti hópum heim til sín í stutta fræðslu og spjall og þá koma oft mennirnir með eiginkonunum. „Þeir hafa ekkert síður ánægju af því að læra þetta ferli. Það hafa flestir gaman af þjóðlegum fróðleik,“ segir hún. „Áhuginn á námskeiðinu hefur aukist mikið á undanförnum árum. Ég var með eitt námskeið í vor, verð með annað á laugardaginn sem er nær uppselt þannig að við settum upp það þriðja 16. september. Síðan er ég með nokkur námskeið á ári heima hjá mér,“ segir Guðrún og bætir við að áhugi á jurtalitun hafi aukist jafnt og þétt eftir bankahrunið 2008.

Hér má sjá hvernig litirnir koma fram eftir meðhöndlun á námskeiðinu.
„Eftir hrunið fóru margir að nýta hluti betur og horfa í gamlar hefðir. Áhugi á prjónaskap jókst og jurtalitunin er framhald af því. Fyrir hrunið voru að detta út kynslóðir sem gátu kennt börnum sínum að prjóna. Heil kynslóð sem kunni ekki þetta handverk. Sem betur fer hefur það breyst. Nú hefur sömuleiðis vaknað áhugi fyrir að spinna.“

Starfar við áhugamálið

Guðrún býr ekki langt frá Hvanneyri og er með sveitina allt í kringum sig þótt hún stundi ekki bústörf. Hún er stundakennari við Landbúnaðarháskólann og kennir meðal annars grasafræði og plöntugreiningu. „Ég er svo heppin að vinna við áhugamálið,“ segir hún. „Skemmtilegasta sem ég geri er að liggja úti í náttúrunni og greina plöntur. Á Íslandi eru bara 500 tegundir af plöntum sem er lítið miðað við Bretlandseyjar þar sem þær eru hátt í sex þúsund.“

Guðrún segist vera alin upp við mikla handverkshefð og hafa mikla unun af prjónum og allri handavinnu. „Móðir mín var handavinnukennari í Reykjavík. Ég hef hins vegar lítinn tíma fyrir handavinnu, það er alltaf svo mikið að gera. Ég hef til dæmis verið að spinna og það er tímafrekt að sitja við rokkinn. Það trúir því kannski enginn í dag en hér áður fyrr var ég mikil miðbæjarrotta, bjó í miðbænum og vann við útsendingar frétta á Stöð 2 og RÚV alla mína starfsævi áður en ég ákvað að umbylta lífi mínu árið 2001. Núna var ég að klára kennsluréttindanám fyrir framhaldsskóla við Háskólann á Akureyri en ætli ég láti svo ekki gott heita með frekara nám í bili,“ segir Guðrún og hlær.

Afrakstur námskeiðs sem Guðrún var með í vor.
Engin leyndarmál

Guðrún býr í gömlu starfsmannahúsi við Andakílsárvirkjun þar sem hún hefur vinnustofu. Þar býr hún með hundinum Trygg og nokkrum hænum. „Ég kæmist líklega ekki upp með þessa atvinnu ef ég hefði fjölskyldu þar sem þetta er gríðarleg vinna og ég legg undir mig húsið, vinnustofuna og allan sólarhringinn.

Það er ánægjulegt hve áhuginn er mikill á jurtalitun og ég nýt þess að kenna hana. Ég er oft spurð að því af hverju ég sé að kenna öll „litunarleyndarmálin“, hvort ég sé ekki hrædd um að allir fari að lita sjálfir og bandið mitt hætti að seljast. En ég svara því til að það myndi veita mér mikla gleði ef jurtalitun yrði svo almenn að bandið mitt hætti að seljast. Ég myndi þá bara finna mér eitthvað annað að gera.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×