Viðskipti innlent

Hlutur TM í Stoðum metinn á 1,8 milljarða

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.
Eignarhlutur tryggingafélagsins TM í eignarhaldsfélaginu Stoðum, áður FL Group, var metinn á tæpa 1,8 milljarða í bókum félagsins í lok júnímánaðar. Hluturinn er langsamlega stærsta einstaka fjárfestingareign félagsins.

TM á óbeint 12,5 prósenta hlut í Stoðum í gegnum félagið S122 ehf. og 1,1 prósents hlut í helstu eign Stoða, evrópska drykkjarframleiðandanum Refresco Gerber sem er skráður á markað í Hollandi.

Miðað við núverandi gengi bréfa Refresco Gerber er markaðsvirði félagsins um 163 milljarðar króna. Samkvæmt því er óbeinn hlutur TM í félaginu metinn á um 1.790 milljónir króna.

Stoðir eiga 8,87 prósenta hlut í Re­fresco og er sá hlutur metinn á um 14,2 milljarða króna. Til samanburðar var hluturinn bókfærður á 12,7 milljarða í lok síðasta árs. Eftir yfir tuttugu prósenta hækkun í aprílmánuði hefur gengi bréfa Refresco lækkað um tíu prósent í sumar.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í apríl keyptu íslenskir fjárfestar ásamt TM rúmlega fimmtíu prósenta hlut í Stoðum af Glitni HoldCo og erlendum fjármálastofnunum. Auk TM samanstóð kaupendahópurinn af félögum á vegum Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group, Einari Erni Ólafssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Örvari Kjærnested, fjárfesti og stjórnarmanni í TM, og Magnúsi Ármanni, fjárfesti og fyrrverandi stjórnarmanni í FL Group.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×