Innlent

Áslaug ekki íhugað að segja af sér

Sigurður Mikael Jónsson og Sæunn Gísladóttir skrifa
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki hafa íhugað að segja af sér nefndarformennsku í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis vegna umdeilds tísts hennar þar sem hún óskaði eftir vefslóð að ólöglegu streymi að boxbardaga Conors McGreg­or og Floyds Mayweather aðfaranótt sunnudags.

Þingmaðurinn segir jafnframt að ekki hafi verið skorað á sig að segja af sér nefndarformennsku.

Stundin vakti fyrst athygli á málinu á þriðjudag og fjölluðu fleiri fjölmiðlar um málið í kjölfarið og sætti Áslaug harðri gagnrýni. Á miðvikudag baðst Áslaug Arna afsökunar og viðurkenndi að hafa gert mistök af hugsunarleysi.

Í samtali við Fréttablaðið í gær sagðist Áslaug hafa sagt það sem hún vildi segja um málið og vísaði í yfirlýsingu sína.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
„Að sjálfsögðu eiga þingmenn að vera meðvitaðir um þetta umhverfi,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, aðspurð um streymismálið svokallaða.

Katrín, sem er fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, segir Áslaugu manneskju að meiri fyrir að biðjast afsökunar en málið sýni að vitund fólks um þessi málefni sé ekki nægjanleg.

„Ég er talskona þess að við hugum að stöðu íslenskra efnisveitna og samkeppnisstöðu þeirra gagnvart þeim erlendu því hún er auðvitað erfið. Allir geta gert mistök en málefni fjölmiðla og innlendra efnisveitna er eitthvað sem Alþingi ætti að taka miklu sterkar upp. Formaður allsherjar- og menntamálanefndar gæti auðvitað beitt sér í því og ætti að gera það á vettvangi nefndarinnar. Hún ætti að nýta tækifærið því það veitir svo sannarlega ekki af.“


Tengdar fréttir

Áslaug vildi streyma bardaganum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, auglýsti um helgina eftir slóð á ólöglegt streymi af bardaga Conors McGregor og Floyds Mayweather.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×