Erlent

Óttast stórhættulegan reyk frá efnaverksmiðju við Houston

Kjartan Kjartansson skrifar
Vegatálmum hefur verið komið fyrir til að loka fyrir aðgang að efnaverksmiðjunni í Crosby, rúma 30 kílómetrum frá Houston.
Vegatálmum hefur verið komið fyrir til að loka fyrir aðgang að efnaverksmiðjunni í Crosby, rúma 30 kílómetrum frá Houston. Vísir/AFP
Reykjarmökkurinn sem leggur frá skemmdri efnaverksmiðju nærri Houston getur verið „ótrúlega hættulegur“, að sögn yfirmanns Almannavarna Bandaríkjanna (FEMA). Eldur logar í efnum í verksmiðjunni eftir að flóð af völdum Harvey skemmdu kælikerfi hennar.

William Long, yfirmaður FEMA, lýstu verulegum áhyggjum af því að eiturský gæti lagt frá verksmiðjunni, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Forsvarsmenn Arkema, franska fyrirtækisins sem rekur verksmiðjuna, höfðu áður varað við að engin leið væri að koma í veg fyrir sprengingu í henni.

Reuters-fréttastofan segir að Umhverfisstofnun Bandaríkjanna hafi sent neyðarstarfsmenn á staðinn.

Lögreglumaður sem andaði að sér eiturgufum var fluttur á sjúkrahús og níu aðrir voru færðir til aðhlynningar til öryggis. Fólki í tæplega 2,5 kílómetra radíus í kringum verksmiðjuna hefur verið skipað að yfirgefa svæðið.

Neita frásögnum af sprengingu

Washington Post segir hins vegar að ólíkum sögum fari af því hvað hafi gerst í verksmiðjunni fram að þessu. Upphaflega sagði fyrirtækið að neyðarstarfsmenn Harris-sýslu hafi greint því frá tveimur sprengingum og svörtum reyk frá verksmiðjunni.

Aftur á móti segir slökkvilið sýslunnar að efnahvörf hefðu átt sér stað í verksmiðjunni og að reyk legði frá henni við og við og embættismaður sýslunnar fullyrti að miklar sprengingar hefðu ekki átt sér stað. Þess í stað hafi „hvellir“ heyrst frá verksmiðjunni.

Arkema framleiðir lífærnt peroxíð. Þegar rafmagni sló út í flóðunum stöðvaðist kælikerfi verksmiðjunnar. Sprengihætta hefur skapast af því að efnin ofhitni.

 

 


Tengdar fréttir

Sprengingar í efnaverksmiðjunni í Houston

Ertandi reykur berst frá sprengingum í efnaverksmiðju í útjaðri Houston. Lögreglumaður var fluttur á sjúkrahús eftir að hann andaði að sér eiturgufum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×