Körfubolti

Jón Arnór: Ekki nóg að taka bara tvær æfingar fyrir stórmót

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Við vissum að þetta yrði gríðarlega erfitt verkefni fyrir okkur. Við spiluðum vel í einum leikhluta en það er ekki nóg gegn jafn sterku liði og Grikkjum,“ sagði Jón Arnór Stefánsson eftir tapið gegn Grikklandi á EM í körfubolta í dag. Hann ræddi við Arnar Björnsson stuttu eftir leik.

„En það er bara áfram gakk. Við þurfum að halda áfram með jákvæði að vopni, bjartsýni og baráttu. Við munum gera það.“

Hann segir að það séu góðir leikmenn í gríska liðinu en að strákarnir í íslenska liðinu hafi verið of mistækir í dag. „Við töpuðum boltanum oft klaufalega og hann virtist einfaldlega sleipur og asnalegur, þó svo að það sé engin afsökun.“

„En ég er samt ánægður með baráttuna í liðinu. Við gerðum okkar besta og getum tekið það úr leiknum í dag.“

Jón Arnór hrósaði stuðningssmönnum íslenska liðsins en viðurkennir að hafa ekki gefið þeim nógu mikið til að gleðjast yfir. „Við þurfum að taka það á okkur að skemmta þessum áhorfendum og sýna þeim betri tilþrif og meiri baráttu. Þá fylgir annað með og eitthvað fallegt gerist,“ sagði hann.

Ísland mætir Póllandi á laugardag og segir Jón Arnór að Pólverjar séu með sterkt lið, þó svo að það sé ekki jafn sterkt og það gríska. „Við förum í þann leik af fullum krafti og nú geta menn komið afslappaðir í næsta leik. Hitta betur, fækka mistökum og halda áfram.“

Hann segist ánægður með að spila jafn margar mínútur og hann gerði í dag. Því hafi hann ekki reiknað með fyrirfram enda lítið spilað í sumar. „Það var sérstaklega gott að geta spilað svo mikið án þess að stífna í náranum. Það vantar samt aðeins upp á hjá mér enda ekki nóg að taka bara tvær æfingar fyrir stórmót.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×