Körfubolti

Frábær staða í fyrri hálfleik en annað tap á móti Ungverjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Vísir/andri marinó
Íslenska körfuboltalandsliðið tapaði með fimmtán stigum, 82-67, í seinni æfingaleik sínum í Ungverjalandi og Ungverjarnir unnu því báða leikina með sama mun.

Íslenska liðið stóð stig mun betur í dag en í gær og þá sérstaklega fyrstu sextán mínútur leiksins sem íslensku strákarnir unnu með þrettán stigum. 11-0 sprettur Ungverja í lok fyrri hálfleiks jafnaði leikinn og Ungverjarnir voru síðan mun sterkari í seinni hálfleiknum.

Martin Hermannsson var atkvæðamestur í íslenska liðinu í leiknum með 17 stig og 78 prósent skotnýtingu (7 af 9) en Haukur Helgi Pálsson skoraði 12 stig. Átta af stigum Harðar Axel Vilhjálmssonar komu áður en Ungverjar skoruðu sitt fyrsta stig í leiknum en Hörður endaði með 10 stig.

Jón Arnór Stefánsson gat ekki spilað með íslenska landsliðinu vegna meiðsla en hann hefur misst af sex af sjö leikjum liðsins í lokaundirbúningnum.

Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði átta stig á fyrstu þremur mínútum leiksins og íslensku strákarnir komust í 10-0 í byrjun leiks. Ísland komst síðan í 14-7 en var síðan bara fimm stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 21-16.

Íslenska liðið steig aftur á bensíngjöfina í öðrum leikhluta og var þrettán stigum yfir, 39-26, eftir þriggja stiga körfur frá Hlyni Bæringssyni þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks.

Ungverjarnir unnu hinsvegar síðustu fjórar mínútur hálfleiksins 11-0 og því munaði aðeins tveimur stigum á liðunum í hálfleik, 39-37.

Haukur Helgi Pálsson (9 stig), Martin Hermannsson (8) og Hörður Axel Vilhjálmsson (8) voru atkvæðamesti í íslenska liðinu í fyrri hálfleiknum.

Ungverjarnir tóku síðan frumkvæðið í þriðja leikhlutanum sem þeir unnu 20-9 og voru því komnir níu stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 57-48.

Ungverska liðið bætti við forystuna í lokaleikhlutanum sem liðið vann 25-19 og þar með leikinn með fimmtán stigum.

Íslenska liðið hafði þar með tapað síðustu 24 mínútum leiksins með 28 stigum, 56-28.



Stig íslenska liðsins í leiknum:

Martin Hermannsson 17

Haukur Helgi Pálsson 12

Hörður Axel Vilhjálmsson 10

Logi Gunnarsson 9

Hlynur Bæringsson 5 (7 fráköst, 3 stoðsendingar)

Ægir Þór Steinarsson 4

Tryggvi Snær Hlinason 4

Elvar Már Friðriksson 3

Kristófer Acox 2

Brynjar Þór Björnsson 1

Pavel Ermolinskij skoraði ekki




Fleiri fréttir

Sjá meira


×