Erlent

Breitbart taldi Lukas Podolski stórhættulegan flóttamann

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lukas Podolski sést hér með sólgleraugu og appelsínugult björgunarvesti. Myndin er tekin á HM í knattspyrnu árið 2014.
Lukas Podolski sést hér með sólgleraugu og appelsínugult björgunarvesti. Myndin er tekin á HM í knattspyrnu árið 2014. Skjáskot
Hægrisinnaða fréttaveitan Breitbart baðst í dag afsökunar á því að hafa talið knattspyrnumanninn Lukas Podolski vera flóttamann sem ferðast hefði milli Marokkó og Spánar í grein sem birtist á vefnum.

Greinin, sem heitir „Spænska lögreglan sker upp herör gegn gengi sem flytur flóttamenn á sjóköttum,“ rataði á vefinn á föstudag . Fréttin var myndskreytt með ljósmynd af tveimur mönnum á sjóketti. Annar þeirra er fyrrnefndur Podolski sem almennt er talinn einn besti knattspyrnumaður sinnar kynslóðar í Þýskalandi en hann hefur leikið með stórliðum á borð við Arsenal, Bayern München, Internazionale og Köln.

Myndin af Podolski er sögð hafa verið tekin á milli leikja þýska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Brasilíu árið 2014 - en ekki út af ströndum Spánar.

Eftir að Breitbart var úthúðað á samfélagsmiðlum fyrir myndbirtinguna var henni skipt út og smávægilegar breytingar gerðar á greininni.

Búið er að bæta við leiðréttingu neðst í fréttina þar sem mistökin eru viðurkennd og Podolski beðinn afsökunar.

„Það eru engar sannanir fyrir því að Hr. Podolski sé glæpahneigður flóttamaður, né að hann hafi verið seldur mansali. Við óskum honum velfarnaðar á eftirlaunaárunum,“ segir í leiðréttingunni en Podolski lagði nýverið landsliðsskóna á hilluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×