Innlent

Stærsti trampólíngarður landsins var opnaður í dag

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Trampólíngarður var opnaður á höfuðborgarsvæðinu í dag og geta ungir sem aldnir hoppað og skemmt sér á stóru svæði. Frumkvöðullinn að garðinum hér á landi segir viðbrögðin og áhugann koma skemmtilega á óvart.

Það var fjölmenni sem kynnti sér þessa nýjustu afþreyingu sem í boði er á höfuðborgarsvæðinu en fjörkálfar á öllum aldri geta komið og skemmt sér.

Hvernig kom þessi hugmynd til?

„Ég á góða vinkonu sem að smíðar garðinn og ég lét bara til skarar skríða. Sagði bara já, þetta yrði gert,“ segir Örn Ægisson, eigandi Skypark.

Hvernig býstu við að þetta fari af stað?

„Ég bara held að þetta verði sprengja, mér sýnist það. Þetta er allt orðið fullt og verður svona næstu daga,“ segir Örn. Örn segir markað fyrir annars konar afþreyingu hér á landi og um ár hafi tekið að koma þessu á koppinn. „Fyrirmyndin er frá  Eistlandi. Skypark,“ segir Örn

Prufaðirðu þar?

„Já ég prófaði þetta þar, fór í heimsókn og það var æðislegt,“ segir Örn.

Svæðið er stærsta trampólínsvæði á landinu, og sérstök leikherbergi og herbergi fyrir barnaafmæli og aðra fagnaðarfundi.  Staðinn prýða stór málverk eftir listamennina Helenu Hanni og Vahur Agar, þar sem myndefni er sótt í íslenskar hetjur frá ýmsum tímum og ævintýri sem börn þekkja.

Það er hellings líkamsrækt í þessu?

„Já þetta tekur á,“ segir Örn

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×