Innlent

Kúludalsárbóndi ekki af baki dottinn þrátt fyrir frávísun

Benedikt Bóas skrifar
Hestur sem veiktist á Kúludalsá og var felldur árið 2015. Ragnheiður segist hafa gert allt sem hún gat til að koma honum til heilsu á ný.
Hestur sem veiktist á Kúludalsá og var felldur árið 2015. Ragnheiður segist hafa gert allt sem hún gat til að koma honum til heilsu á ný. Ragnheiður Þorgrímsdóttir
Ragnheiður Þorgrímsdóttir, bóndi á Kúludalsá í Hvalfirði, segir baráttu sinni vegna mengunar frá iðjuverunum á Grundartanga og veikinda í hrossum sínum hvergi nærri lokið.

Nýlega vísaði atvinnuvegaráðuneytið kæru Ragnheiðar vegna vinnubragða Matvælastofnunar frá, en meðal þess sem kært var voru rangfærslur um málavexti, rannsókn sem hefði leitt til rangra niðurstaðna svo og synjun MAST á að fjarlægja persónuupplýsingar og ærumeiðandi aðdróttanir um Ragnheiði af vef sínum. Ráðuneytið taldi háttsemi MAST ekki vera kæranlega og tók því ekki efnislega afstöðu til veikinda hrossanna eða ástæðna fyrir þeim.

Ragnheiður Þorgrímsdóttir
„Ég er hissa og ósátt við þessa niðurstöðu ráðuneytisins. Þarna er æðra stjórnvald að neita því að taka afstöðu til mjög svo vafasamra vinnubragða undirstofnunar.“

Ragnheiðar hefur ítrekað vakið athygli á því að skömmu áður en hross hennar tóku að veikjast varð alvarlegt mengunarslys í álveri Norðuráls á Grundartanga.

„Að halda því fram, eins og MAST gerir, að það sé ekkert eðlilegra en að yfir 20 hross á sama bænum veikist vegna offitu á nokkrum árum og fella þurfi 17 þeirra er auðvitað alveg út í hött. MAST hefur ekki getað bent á nein sambærileg tilvik. Eftir á að hyggja eru það mikil mistök að hafa leitað til Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar um aðstoð vegna hrossanna. Þessar stofnanir hafa ekki gert annað en að drepa málinu á dreif og jafnvel spilla fyrir. Maður spyr sig stundum hvort þær séu til staðar til að þjóna fólkinu í landinu eða einhverjum allt öðrum.“

Í fyrra lauk þriggja ára langri rannsókn á vegum atvinnuvegaráðuneytisins á veikindum hrossanna á Kúludalsá. Niðurstöður hennar voru þær að það væru yfirgnæfandi líkur á að veikindin stöfuðu af flúorálagi og lögðu til að rannsókninni yrði haldið áfram. Ragnheiður tekur undir mikilvægi þess að rannsaka hvað íslenski hesturinn þolir mikið af flúor en það er ekki vitað í dag. Viðmiðunarmörkin sem Umhverfisstofnun notar komi frá 23 ára gamalli rannsókn á norskum dádýrum. 


Tengdar fréttir

Bóndinn á Kúludalsá fær gögn ekki fjarlægð af vefsíðu MAST

Baráttunni lauk nýverið þegar stjórnsýslukæru hans, vegna synjunar Matvælastofnunar um að fjarlægja skýrslu um hross bóndans og illa meðferð ásamt tengdum gögnum og fréttum af heimasíðu sinni, var vísað frá af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×