Enski boltinn

Meistarabyrjun manna Mourinhos í Manchester

Smári Jökull Jónsson skrifar
Eric Bailly fagnar fyrsta markinu á móti Swansea ásamt þeim Paul Pogba  og Romelu Lukaku .
Eric Bailly fagnar fyrsta markinu á móti Swansea ásamt þeim Paul Pogba og Romelu Lukaku . Vísir/Getty
Manchester United hefur byrjað leiktíðina á Englandi frábærlega og unnið tvo 4-0 sigra í fyrstu tveimur umferðum úrvalsdeildarinnar. Jose Mourinho, þjálfari United, sagði gleði hafa einkennt leik liðsins gegn Swansea á laugardaginn þar sem Paul Pogba blómstraði og Romelu Lukaku skoraði í öðrum leiknum í röð.

Jose Mourinho er á sínu öðru ári sem þjálfari Manchester United. Á köflum leit út fyrir að tímabilið í fyrra yrði vonbrigði en sigur í Deildabikarnum og Evrópudeildinni tryggðu að svo yrði ekki þrátt fyrir að liðið hafi aðeins endað í 6. sæti úrvalsdeildarinnar. Sérstaklega var sigurinn í Evrópudeildinni mikilvægur því hann tryggði liðinu sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Mourinho hafði styrkt liðið duglega fyrir síðustu leiktíð en þó var eitthvað sem virtist vanta og þá sérstaklega sóknarlega því liðið skoraði umtalsvert færri mörk en keppinautar þess í efri hluta deildarinnar. Zlatan Ibrahimovic stimplaði sig þó rækilega inn en eftir að hann meiddist illa undir lok síðustu leiktíðar fóru menn strax að velta fyrir sér hvaða stjörnuframherja Mourinho myndi fá til liðsins.

Úr varð að Romelu Lukaku var keyptur frá Everton fyrir metupphæð. Belginn ungi hefur byrjað vel en það voru önnur kaup sem vöktu jafnvel enn meiri athygli.





Nemanja Matic.Vísir/Getty
Mikilvægasta púslið

Einverjum finnst það hljóma undarlega að varnarsinnaður miðjumaður geri gæfumuninn í sóknarleik knattspyrnuliðs. En miðað við fyrstu tvo leiki Manchester United á þessu tímabili virðist það þó vera raunin.

Sá sem um ræðir heitir Nemanja Matic og var lykilmaður í meistaraliði Antonio Conte hjá Chelsea á síðustu leiktíð. Serbinn hefur spilað óaðfinnanlega í upphafi tímabils og gefið leikmönnum eins og Paul Pogba og Henrikh Mkhitarian aukið frelsi og meiri tíma á boltann í sóknarleiknum. Armeninn Mkhitarian hefur lagt upp fjögur af átta mörkum United til þessa og Pogba hefur leikið afar vel við hlið Matic á miðri miðjunni.

Þetta er í annað skipti sem Jose Mourinho kaupir Matic því það var einmitt hann sem fékk Serb­ann til liðs við Chelsea í janúar árið 2014. Tímabilið 2014-15 varð Matic enskur meistari með Chelsea undir stjórn Mourinho og kom við sögu í 36 af 38 leikjum liðsins. Hann var með öðrum orðum lykilmaður í meistaraliði Portúgalans.

Leikgleði og drápseðli

Í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar gegn West Ham og á laugardag gegn Swansea skoraði Manchester Un­ited mörk á lokamínútum leikjanna. Í bæði skiptin hafði liðið forystu en kláraði leikinn endanlega með mörkum undir lokin. Gegn Swansea skoraði United þrjú mörk þegar innan við tíu mínútur voru eftir og er það eitthvað sem Mourinho var sérstaklega ánægður með.

„Leikmennirnir sýndu gæði, stöðugleika og yfirvegun á meðan þeir biðu eftir að geta drepið leikinn. Leikur okkar einkenndist af gleði og þið sáuð á líkamstjáningu minni að mér fannst við vera við stjórnvölinn í leiknum,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi eftir leikinn á laugardag.

Umrædd mörk undir lok leikjanna bera merki um drápseðli sem Mourinho hefur náð fram í leikmannahópi United og jafnvægið í leik liðsins virðist vera meira en á síðasta tímabili.

Paul Pogba.Vísir/Getty


Er breiddin næg?

Það er ekkert leyndarmál að Mourinho hefur haft augastað á nokkrum leikmönnum til að auka breiddina í sókn United-liðsins. Lengi vel var Króatinn Ivan Per­isic hjá Inter orðaður við liðið og síðustu daga hafa leikmenn á borð við Julian Draxler hjá PSG og Gareth Bale hjá Real Madrid verið nefndir til sögunnar.

Anthony Martial hefur komið inn af bekknum í deildarleikjunum til þessa og skorað í bæði skiptin og þá á liðið einnig Jesse Lingard og Ashley Young inni. Að öðru leyti eru ekki margir leikmenn sem geta leyst af þá Mkhitarian, Lukaku, Juan Mata og Marcus Rashford þegar leikjaálagið í öllum keppnum fer að segja til sín.

Nái Mourinho hins vegar að bæta öflugum sóknarmanni við hópinn hjá United er full ástæða til að gera ráð fyrir liðinu í baráttu á öllum vígstöðvum í vetur.

Marcos Alonso skoraði tvö fyrir Chelsea.Vísir/Getty
Stóru málin eftir helgina í enska boltanum

Stærstu úrslitin

Chelsea vann frábæran útisigur á Tottenham eftir magalendinguna gegn Burnley í fyrstu umferðinni. Sigurinn er kærkominn fyrir Antonio Conte þjálfara sem hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarið vegna frétta af rifrildi við Diego Costa. Sigurinn veitir Conte smá andrými.

Hvað kom á óvart?

Burnley vann frábæran útisigur á meisturum Chelsea í fyrstu umferðinni og leikmenn því fullir sjálfstrausts þegar þeir tóku á móti lærisveinum Tony Pulis á heimavelli. WBA vann hins vegar sinn annan 1-0 sigur á leiktíðinni og er með fullt hús stiga.

Mestu vonbrigðin

Tap Arsenal fyrir Stoke olli  miklum vonbrigðum eftir frábæra endurkomu í fyrstu umferðinni gegn Leicester. Stoke hefur verið martraðarmótherji Arsenal síðustu ár og þrátt fyrir töluverða yfirburði úti á vellinum í leiknum á laugardag urðu þeir að lúta í gras.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×