Enski boltinn

Leikmaður helgarinnar: Mætir með sjálfstraustið í botni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Paul Pogba fagnar marki sínu um helgina.
Paul Pogba fagnar marki sínu um helgina. Vísir/Getty
Paul Pogba hefur byrjað tímabilið frábærlega og skoraði í öðrum leiknum í röð í 4-0 sigrinum á Swansea. Hann hefur spilað afar vel í fyrstu tveimur leikjum United á tímabilinu og verið sá prímus mótor á miðjunni sem Jose Mourinho ætlast til að hann sé.

Í leiknum á laugardag virtist Pogba vera örlítið pirraður áður en United komst yfir. Hann fékk gult spjald um miðjan fyrri hálfleik og Jon Moss dómari þurfti síðan að ræða við hann eftir að hann braut aftur af sér skömmu síðar.

Eftir það var lítið um pirring hjá Pogba. Hann átti hörkuskalla í þverslána sem Eric Bailly fylgdi á eftir þegar United komst í 1-0 rétt fyrir hálfleik og Pogba skoraði svo sjálfur þriðja mark liðsins undir lokin áður en hann lagði upp fjórða markið fyrir Anthony­ Martial.

Þegar Pogba var keyptur fyrir metupphæð fyrir tímabilið í fyrra fékk hann á sig töluverða pressu. Hann virtist ekki alveg standa undir henni á síðustu leiktíð en mætir til leiks á þessu tímabili með sjálfstraustið í botni. Það er eitthvað sem öll lið í ensku úrvalsdeildinni ættu að hafa áhyggjur af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×