Fótbolti

Neymar gagnrýnir stjórn Barcelona harkalega: Borgin á betra skilið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neymar í leik með Barcelona.
Neymar í leik með Barcelona. Vísir/Getty
Neymar finnst ekki mikið til stjórnarmanna knattspyrnufélags Barcelona koma en hann gagnrýndi þá harkalega eftir 6-2 sigur PSG á Toulouse í frönsku úrvalsdeildinni í gær.

PSG keypti Neymar frá Barcelona með því að greiða riftunarverð samnings hans við félagið, 222 milljónir evra. Hann gaf í skyn í gær að ein ástæða þess að hann ákvað að fara væri óánægja með stjórn félagsins.

„Ég hef ekkert að segja um stjórn Barcelona,“ sagði Neymar í fyrstu en breytti svo um tón.

„Jú, það er reyndar nokkuð sem ég vil segja. Ég varð fyrir vonbrigðum með hana. Ég var hjá Barcelona í fjögur ár og var mjög ánægður, bæði þegar ég kom og þegar ég fór. En ekki með stjórnarmennina.“

„Ég tel að þeir eiga ekki að stýra þessu félagi. Barca á svo mun betra skilið og þetta er eitthvað sem allir vita.“

Það hefur lítið gengi á leikmannamarkaðnum hjá Barcelona í sumar. Brasilíumaðurinn Paulinho kom frá Guangzhou Evergrande en engin stórstjarna. Börsungar hafa ítrekað reynt að fá Coutinho frá Liverpool og Ousmane Dembele frá Dortmund en án árangurs.

„Ég veit ekki hvað er í gangi hjá Barcelona en mér þykir leitt að sjá mína gömlu liðsfélaga leiða, enda á ég enn marga vini þar. Ég vona að ástandið batni hjá Barca fljótt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×