Enski boltinn

Koeman þakkar stjórnarformanni Everton fyrir að halda rónni vegna Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson með Ronaldo Koeman.
Gylfi Þór Sigurðsson með Ronaldo Koeman. Mynd/Twitter-síða Everton
Það tók langan tíma fyrir Everton að ná samkomulagi við Swansea um kaupverð á Gylfa Þór Sigurðssyni, sem gekk loks í raðir félagsins í síðustu viku eftir mikla bið.

Koeman hefur miklar mætur á Gylfa sem er nú dýrasti leikmaður Everton frá upphafi en félagið keypti hann á 40 milljónir punda auk aukagreiðslna.

En Hollendingurinn þurfti eins og aðrir að bíða þolinmóður á meðan að aðilar náðu saman. „Bill [Kenwright, stjórnarformaður Everton] var alltaf svo rólegur. Hann sagði: „Ég mun klára þessi kaup en þú verður að vera rólegur.“ Og ég skil auðvitað að svona ganga viðskiptin oft fyrir sig,“ sagði Koeman.

„Þetta eru stór félagaskipti, sem klárast ekki bara á tveimur dögum. Stundum tekur það lengri tíma.“

Koemen lýsti því að hann hafi lengi fengið þau skilaboð að stutt væri í að málið yrði í höfn. Hann var svo ánægður þegar það gekk loksins í gegn.

„Auðvitað hefði verið betra að klára þetta fyrr en þegar maður lítur í kringum sig og sér að önnur lið eru enn að leita að nýjum leikmönnum,“ sagði Koeman.

Gylfi gæti komið við sögu í sínum fyrsta leik með Everton í kvöld þegar liðið mætir Manchester City á útivelli. Leikurinn hefst klukkan 19.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×