Erlent

Dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir Arboga-morðið

Atli Ísleifsson skrifar
Grunur leikur á að Johanna Möller hafi einnig átt þátt í dauða annars kærasta síns en sá fannst látinn í grunnu vatni við sumarbústaðinn árið 2015.
Grunur leikur á að Johanna Möller hafi einnig átt þátt í dauða annars kærasta síns en sá fannst látinn í grunnu vatni við sumarbústaðinn árið 2015. Vísir/Getty
Dómstóll í Svíþjóð hefur dæmt Johanna Möller í lífstíðarfangelsi fyrir morð á föður sínum og tilraun til morðs á móður sinni á síðasta ári. Málið hefur gengið undir nafn Arboga-málið í sænskum fjölmiðlum og hefur það verið eitt mest um fjallaða sakamálið í Svíþjóð á síðustu árum.

Fyrrverandi kærasti Möller, Mohammad Rajabi, var í morgun einnig dæmdur fyrir aðild sína að málinu, en hann hlaut fjórtán ára dóm. Verður honum vísað úr lendi að afplánun lokinni og meinað að snúa aftur til Svíþjóðar.

Í frétt SVT kemur fram að lögmaður Möller segi að til standi að áfrýja dómnum. Þau Möller og Rajabi voru fundin sek af dómara fyrr í sumar, en gert að gangast undir geðrannsókn áður en refsing yrði ákveðin.

Möller var dæmd fyrir morðið á föður sínum og tilraun til að myrða móður sína þann 3. ágúst 2016 skammt frá Arboga, um hundrað kílómetrum vestur af Stokkhólmi. Ráðist var á foreldrana með hníf í sumarbústað fjölskyldunnar og lést faðirinn af völdum sára sinna. Móðirin særðist alvarlega.

Ósætti um peninga

Rajabi, sem er á þrítugsaldri, viðurkenndi þátt sinn í árásinni og sagði Möller hafa gefið honum hnífinn sem notaður var. Við réttarhöld kom fram að afbrýðisemi og ósætti um peninga hafi leitt til árásarinnar.

Möller var sömuleiðis fundin sek um stórfelld svik, skjalafals, tilraunir til að múta opinberum starfsmönnum, brot gegn valdstjórn og morðhótanir. Konan neitaði öllum ákæruliðum.

Grunur leikur á að hún hafi átt einnig þátt í dauða annars kærasta síns en sá fannst látinn í grunnu vatni við sumarbústaðinn árið 2015.

Þau Möller og Rajabi hefur einnig verið gert að greiða aðstandendum fórnarlamba miskabætur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×