Innlent

Segir lögreglu hafa boðið ungum manni alla mögulega aðstoð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að ungum manni, sem færður var í umsjá lögreglunnar á föstudagskvöld grunaður um að hafa framvísað fölsuðum skilríkjum, hafi verið boðinn matur. Maðurinn hafi afþakkað matinn og óskað eftir því að fá frekar að sofa á meðan beðið væri eftir skilríkjasérfræðingi.

Maðurinn kom til landsins á fimmta tímanum, aðfaranótt föstudags. Kviknaði grunur um að hann hefði framvísað fölsuðum skilríkjum og var hann handtekinn af lögreglu á Keflavíkurflugvelli. Var hann í haldi lögreglu þar til síðdegis og á yfir höfði sér sekt eða tveggja til fjögurra vikna fangelsi.

Kristrún Elsa Harðardóttir, lögmaður mannsins, sagði í samtali við Vísi á föstudagskvöldið telja að lögregla hefði ekki boðið skjólstæðingi hennar um vott og þurrt í rúmar fjórtán klukkustundir, frá því hann var tekinn höndum við komuna til landsins.

Kristrún Elsa Harðardóttir, sem gætir hagsmuna mannsins, segir hann hafa verið aðframkominn þegar henni var gert viðvart um mál hans.
„Ég er reið og döpur að horfa upp á svona meðferð á fólki, brot á mannréttindum og meðalhófsreglu. Er það svona sem við viljum koma fram við fólk sem annað hvort er á leið hingað eða kemur hér við á leið sinni að betra lífi eða skjóli? Það vill ég amk ekki og ég vona að fleiri séu sammála mér,“ sagði Kristrún Elsa sem tjáði sig um málið á Facebook.

Í svari lögreglustjórans við fyrirspurn Vísis segir:

Vegna ummæla Kristrúnar Elsu Harðardóttur hdl. í fjölmiðlum þess efnis að farþegi sem stöðvaður var með fölsuð skilríki í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 18. ágúst sl. hafi verið í haldi lögreglu frá því snemma morguns við „ómannúðlegar aðstæður og ekkert fengið að borða á þeim tíma“ vill embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum koma eftirfarandi leiðréttingu á framfæri:

Í bókun um málið kemur skýrt fram að þegar umræddur aðili var kominn í umsjá lögreglu í flugstöðinni var hann spurður hvort hann vildi fá eitthvað að borða. Hann kvaðst frekar vilja sofna meðan beðið var eftir skilríkjasérfræðingi. 

Lögreglumaður sá þá til þess að vel færi um hann og óskaði aðilinn „ekki eftir frekari aðstoð,“ eins og segir í bókuninni. Hann var svo vistaður á lögreglustöð frá kl. 15:30 – 19:03 þann 18. ágúst. 

Aðilanum var því boðin öll sú aðstoð sem fyrir hendi var meðan hann var í umsjá lögreglu.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×