Erlent

Antonov skipaður nýr sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum

Atli Ísleifsson skrifar
Anatoli Antonov er aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands.
Anatoli Antonov er aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands. Vísir/AFP
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur skipað Anatoli Antonov aðstoðarutanríkisráðherra sem nýjan sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Antonov tekur við stöðunni af Sergei Kislyak sem hefur verið mikið í umræðunni á árinu vegna tengsla ráðgjafa Donald Trump Bandaríkjaforseta og fulltrúa rússneskra stjórnvalda. 

Skipunin þykir nokkuð ögrandi þar sem Antonov er að finna á lista Evrópuríkja yfir þá Rússa sem hafa verið beittir viðskiptaþvingunum vegna aðkomu rússneskra hersveita að deilunni í austurhluta Úkraínu. Reuters greinir frá þessu.

Kislyak tók við embætti sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum árið 2008. 

Fáeinum vikum eftir embættistöku Trump þurfti þjóðaröryggisráðgjafinn Michael Flynn að segja af sér eftir að hann hafði logið til um samskipti sín við Kislyak. Dómsmálaráðherrann og fyrrverandi öldungadeildarþingmaðurinn Jeff Sessions átti sömuleiðis fundi með Kislyak og ákvað hann í vor að segja sig frá rannsókn á aðkomu Rússa að forsetakosningunum.

Þá fundaði einnig Jared Kushner, tengdasonur og ráðgjafi Trump, með Kislyak fyrir valdaskiptin í Washington í janúar.

Rússnesk stjórnvöld hafa neitað að hafa átt afskipti af bandarísku forsetakosningunum.


Tengdar fréttir

Rússneski sendiherrann yfirgefur Washington

Sergei Kislyak hefur mikið verið í umræðunni á árinu vegna tengsla ráðgjafa Donald Trump Bandaríkjaforseta og fulltrúa rússneskra stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×