Innlent

Kostnaður við áheitasöfnun nam 23 milljónum frá 2012

Sæunn Gísladóttir og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Íslandsbanki ætlar að auka stuðning við hlaupið í ár.
Íslandsbanki ætlar að auka stuðning við hlaupið í ár.
Alls hefur kostnaður við áheitasöfnun fyrir Reykjavíkurmaraþonið numið tæpum 23 milljónum króna frá árinu 2012 og hefur sá peningur fengist með því að taka 5 til 7 prósenta hlut af áheitasöfnun hvers árs.

Íslandsbanki tilkynnti um helgina, í kjölfar gagnrýni frá einni söfnunarstjörnu maraþonsins, að ekki yrði lengur tekið af söfnunarfé til að standa undir kostnaði eftir gagnrýni nokkurra hlaupara. Mun bankinn framveigis greiða allan kostnað sem fellur til við söfnunina. 

Stærstur hluti kostnaðar undanfarin ár hefur farið í tölvukerfið að baki vefsíðunni sem hýsir áheitasöfnunina. Sá kostnaður var mestur árið 2013, eða 3.052.380 krónur, en minnstur ári áður, 2.326.438 krónur.

Launakostnaður var næststærsti liðurinn en hann lækkaði árið 2015 eftir að mögulegt varð í fyrsta sinn að greiða með debetkortum. Var sá kostnaður mestur árið 2014, 2.248.575 krónur, en minnstur árið 2012, 635.600 krónur.

Færslugjöld eru svo þriðji kostnaðarliðurinn en þau voru hæst í fyrra, 802.582 krónur. Liðurinn hefur stækkað ár frá ári samhliða því sem áheitasöfnunin stækkar.

Þessar upplýsingar má finna í tilkynningu Íþróttabandalags Reykjavíkur frá því í gær. Segir þar að bandalagið fagni því að Íslandsbanki ætli sér að greiða kostnað söfnunarinnar og að hlutfallinu sem tekið var af söfnunarfé hafi alltaf verið haldið í lágmarki




Fleiri fréttir

Sjá meira


×