Innlent

Segja Íslendinga verja minna í lyfjakaup en aðrar þjóðir

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Lyfjakaup eru um 8 prósent af útgjöldum til heilbrigðismála.
Lyfjakaup eru um 8 prósent af útgjöldum til heilbrigðismála. Frumtök
Ekki er hægt að rekja vöxt heilbrigðisútgjalda í Evrópu til aukningar útgjalda vegna lyfjakaupa. Þetta kemur fram í tilkynningu Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Vitnað er til gagna sem tekin voru saman af samtökum lyfjaframleiðenda í Evrópu.

Þar segir einnig að innan OECD ríkjanna hafi útgjöld vegna lyfjagjalda dregist saman um 2 prósent frá árinu 2010. Þá sé fremur hægt að rekja aukinn kostnað vegna heilbrigðismála til hækkandi meðalaldurs þjóða og aukinnar tíðni langvinnra sjúkdóma.

Lyf eru um fimmtungur af heildarkostnaði til heilbrigðismála í Evrópu en Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka telur að hlutfallið sé miklu lægra hér á landi.

„Hér á landi er hlutfallið svo langtum lægra og er nú komið vel niður fyrir tíu prósent af heildarútgjöldum til heilbrigðismála. Hæst var hlutfallið skömmu eftir hrun, nálgaðist þá 13 prósent, en hefur lækkað hratt undanfarin ár og er nú á milli sjö og átta prósent af heilbrigðisútgjöldunum. Við höfum því aldrei verið nálægt þessu 20 prósenta meðaltalshlutfalli í Evrópu,“ segir Jakob Falur.

Samtökin telja að enn sé verið að einbíla á útgjöld vegna lyfjakaupa þegar kemur að aðhaldsaðgerðum í heilbrigðiskerfinu þrátt fyrir að rannsóknir sýni að sá þáttur hafi hvað minnst áhrif. Því skipti máli að horfa til annarra þátta og heildrænnar greiningar á útgjöldum. Þannig megi auka skilning á heildarkostnaði við sjúkdóma og draga úr óskilvirkni í heilbrigðiskerfinu.

Tekið er fram að þróun og nýsköpun í lyfjaiðnaði gefi af sér ódýrari valkosti í baráttu við sjúkdóma á borð við hjartakvilla og þunglyndi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×