Skoðun

Hestvagnahagfræði

Guðmundur Ólafsson skrifar
Enn er þrefað um augljósa hluti. Sumir telja ekki gott að taka upp annan gjaldmiðil því svonefndar hagsveiflur séu ekki eins á Íslandi og annars staðar. Fyrir 50 til 60 árum gat þetta skipt máli þar sem marga mánuði tók að koma fé milli landa, sérstaklega miklu fé. Áður fyrr þurfti hesta og hestvagna til að framkvæma miklar greiðslur milli landa, þeir sem mótast af þessari hugmynd eru fylgjendur svonefndrar hestvagna­hagfræði. Nú tekur það einungis sekúndubrot að senda hundruð milljarða dollara milli landa, ef sími og net eru í lagi. Til dæmis allan gjaldeyrisforða landsmanna. Þetta þekkja þeir vel sem þurft hafa að senda háar fjárhæðir til annarra landa, í erlendri mynt.

Lars Christensen skrifar í ágætri grein: „Það er ekki til neitt sem heitir „hagsveifla““, en sveiflur eru þó í efnahagslífi, oftast af náttúrulegum orsökum en yfirleitt ekki efnahagslegum. Óstjórn ráðamanna er þá væntanlega talin náttúruleg en ekki efnahagslögmál.

Costco hefur breytt ýmsu, boðið upp á betri vörur en við eigum að venjast, oft ódýrari. Þar er skýrt dæmi um æskileg áhrif að vestan. Einn af kostunum við að taka upp Bandaríkjadal er hve auðvelt það er, þyrfti ekki að taka meira en nokkra daga á meðan skilyrði fyrir evru eru þannig að það tæki mörg ár að koma henni á koppinn.

Ekki þarf að ræða frekar skaðsemi íslensku krónunnar, sem jafnast á við að aka bíl með bundið fyrir augun og þeir einir hagnast sem hafa tekjur í gjaldeyri en útgjöld í krónum. Það sem meira er, gjafakvótagreifar og ferðaokrarar munu hagnast þegar til lengdar lætur ef við höfum stöðugan alþjóðlegan gjaldmiðil.

 

Höfundur er hagfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×