Innlent

Fyrsta skóflustungan tekin að Skarðshlíðarskóla

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Frá fyrstu skóflustungunni í dag - Guðlaug Kristjánsdóttir, Alexander Dýri Eyjólfsson, Kristbjörg Eva Arnarsdóttir og Rósa Guðbjartsdóttir.
Frá fyrstu skóflustungunni í dag - Guðlaug Kristjánsdóttir, Alexander Dýri Eyjólfsson, Kristbjörg Eva Arnarsdóttir og Rósa Guðbjartsdóttir.
Fyrsta skóflustungan að byggingu Skarðshlíðarskóla í Vallarhverfinu í Hafnarfirði var tekin kl. 15 í dag. Skólinn er áttundi grunnskóli bæjarins en áætlanir gera ráð fyrir að skólinn verði eingöngu byggður fyrir eigið fé Hafnarfjarðar. Samkvæmt fréttatilkynningu verða það einkum tekjur af lóðasölu.

Það voru þær Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs og formaður fræðsluráðs og Guðlaug Kristjánsdóttir forseti bæjarstjórnar og formaður fjölskylduráðs sem tóku fyrstu skóflustunguna ásamt þeim Alexander Dýra Eyjólfssyni elsta nemenda skólans og þeim yngsta, Kristbjörgu Evu Arnarsdóttur.

,,Þetta er bæði mikilvægur og ánægjulegur áfangi í hafnfirskri skólasögu,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs og fræðsluráðs við skóflustunguna í dag. ,,Vil ég óska tilvonandi nemendum, foreldrum, starfsmönnum og Hafnfirðingum öllum til hamingju og vona að gæfa eigi eftir að fylgja framkvæmdinni og skólastarfinu öllu í framtíðinni.“

 

Skarðshlíðarskóli hefur nú þegar hafið starfsemi en kennslan fer fram í safnaðarheimili Ástjarnarkirkju á meðan framkvæmdir við fyrsta áfangann standa yfir. 96 nemendur eru skráðir í skólann þetta skólaár en þegar hann verður fullbyggður verður hann tveggja hliðstæðu grunnskóli með 400 til 500 nemendur.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ er gert ráð fyrir fjögurra deilda leikskóla fyrir 80 til 90 nemendur og auk þess útibúi frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sem mun geta annað allt að 200 nemendum. Gert er ráð fyrir að fyrsta áfanga verði lokið haustið 2018 og þá flytji grunnskólinn í húsnæðið en húsnæði fyrir leikskólann á að verða tilbúið sumarið 2019.

Stefnt er að því að skólinn verði fullbyggður sumarið 2020. Grunnskóli, leikskóli, íþróttahús og tónlistarskóli verður samtals 8.910 m2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×