Erlent

Leitin að Kim Wall: Líkið sem fannst var sundurlimað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kim Wall hefur verið leitað síðustu daga.
Kim Wall hefur verið leitað síðustu daga. Mynd/Samsett

Líkið sem danska lögreglan fann fyrr í dag í sjónum fyrir utan Kaupmannahöfn var sundurlimað og án höfuðs, handleggja og fóta. Líkið fannst á því svæði sem leitað hefur verið á að sænsku blaðakonunni Kim Wall sem hvarf í síðustu viku.

Staðfest hefur verið að líkið sé af kvenmanni og hefur tæknideild lögreglu það nú til skoðunar svo unnt sé að bera kennsl á líkið.

„Það er ljóst að við, líkt og fjölmiðlar sem og allir aðrir, hafa áhuga á að vita hvort að líkið er af Kim Wall. Um það er of snemmt að segja,“ sagði Jens Møller Jensen, yfirmaður rannsóknarinnar á hvarfi Kim Wall.

Sagði hann á blaðamannafundi í kvöld að ljóst væri að líkið hefði legið í sjónum í nokkurn tíma. Lögregla muni áfram leita á nærliggjandi svæði í von um að finna þá líkamshluta sem vantar á líkið.

Peter Madsen, sem er í haldi lögreglu grunaður um aðild að hvarfi Wall, hefur viðurkennt að hafa varpað líki sænsku blaðakonunnar fyrir borð í kafbáti sínum. Slys hafi orðið um borð í bátnum sem hafi leitt til dauða hennar.

Síðast sást til hinnar þrítugu Wall fimmtudaginn 10. ágúst en hún var með Madsen í kafbátnum í þeim tilgangi að skrifa um kafbátinn og siglinguna. Madsen var handtekinn á laugardaginn grunaður um manndráp af gáleysi eftir að kafbáturinn UC3 Nau­tilus sökk á föstudaginn.

Hann var í kjölfarið úrskurðaður í 24 daga gæsluvarðhald, en neitaði til að byrja með að hafa orðið Wall að bana.


Tengdar fréttir

Lík fannst þar sem Kim Wall er leitað

Danska lögreglan hefur fundið lík af kvenmanni á þeim slóðum þar sem að leitað hefur verið að líki sænsku blaðakonunnar.

Brotlending hins danska Geimflauga-Madsen

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen er mjög þekktur maður í Danmörku. Sú staðreynd að hann sitji nú í gæsluvarðhaldi vegna hvarfs sænsku blaðakonunnar Kim Wall hefur vakið gríðarlega athygli í heimalandi hans og raunar um heim allan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×