Innlent

Í skoðun að setja upp fráveitukerfi við Þingvallavatn

María Elísabet Pallé skrifar
Ferðamönnum sem koma til Þingvalla hefur fjölgað mikið á síðustu misserum. Framkvæmdir á 300 bíla bílastæðaplani eru áætlaðar fyrir næsta sumar.

„Allt skólp frá salernum er keyrt til Reykjavíkur, annars vegar frá Hakinu og salernum sem eru niðri á völlunum, að því undanskildu að við þjónustumiðstöðina er svokallað siturbeð og jarðvegur það þykkur að skólp er hreinsað með hefðbundum hætti,“segir Ólafur Örn Haraldsson.

þjóðgarðsvörður.

Ólafur Örn segir að tekjur vegna salernisþjónustu sem og bílastæðagjöld dugi til að borga kostnaðinn sem myndast við flutning skólpsins.

„Núna í júlí þá borguðum við fjórar milljónir fyrir þessa tæmingu og höfum greitt núna á þessu ári tíu milljónir fyrir þessa þjónustu, ef við tökum tímabilið janúar til júlí og gjaldið sem við tökum af bílastæðum og salernum dugir fyrir þessu,“ segir Ólafur.

Ólafur segir að til þess að leysa málið til frambúðar þurfi að koma upp skilvirkum hreinsibúnaði. Slíkur búnaður myndi leiða allt skólp í sérstakt hreinsivirki sem hreinsar einkum köfnunarefni.

„Þingvallavatn er einhver mesti dýrgripur sem við eigum í náttúru Íslands og við þurfum að leggja árherslu á að vernda og eiga þennan dýrgrip,“ segir Ólafur Örn. „Við höfum fengið mjög góða verkfræðistofu sem er Verkís til þess að fara yfir þetta og leggja fram tillögu um hreinsivirkið og búnaðinn allan, og þeir styðjast við rannsókn óháðra aðila frá Svíþjóð. Fullyrða þeir að köfnunarefnið náist í burtu en það verður úrslitaatriðið fyrir okkur þegar við samþykkjum búnaðinn,“ segir Ólafur Örn .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×