Skoðun

Ríkir trúfrelsi á Íslandi?

Ívar Halldórsson skrifar
Það fer líklegast eftir því hvernig maður skilgreinir frelsi.

Frelsi og frelsi

„Víst er trúfrelsi - það bannar þér enginn að trúa á Guð!", segja sumir - „svo lengi sem þú ferð ekki að halda því fram að hann sé raunverulegur og að Biblían sé eitthvað mikilvæg - því þá máttu búast við því að drullað verði yfir þig!“

Er þá ekki alveg eins hægt að segja að það sé innbrotafrelsi á Íslandi? Fólki er frjálst að brjótast inn þar sem það vill - svo lengi sem það er sátt við lögregluhandtöku og að gista í fangaklefa um ótiltekinn tíma.

Er þá ekki líka mætingarfrelsi á vinnustöðum? Fólki er frjálst að mæta til vinnu þegar það vill - svo lengi sem það er tilbúið að missa vinnuna vegna vanrækslu.

Er hægt að segja að trúfrelsi ríki í landi þar sem fólk hræðist að tjá sig opinberlega um trú sína og upplifir sig ekki frjálst til þess að taka eigin trú alvarlega? Nei.

Meðvirkni

„Trúðu og þegiðu!“, lýsir kannski betur hinu svokallaða trúfrelsi hér í dag.

Á Íslandi er einhvern veginn gert ráð fyrir að fólk taki trú sína ekki of alvarlega og láti hana ekki stýra skoðunum sínum og lífsstíl – sérstaklega ef það hentar ekki „öllum hinum“. Ef sjálfskipaðri rétttrúnaðarlögreglu þjóðar okkar finnst t.d. trúarskoðanir kristinna manna stangast á við stefnur og strauma, eða þær fara út fyrir meintan þægindaramma þjóðfélagsins, er einhvern veginn ætlast til að kristnir brjóti gegn sinni sannfæringu í einhvers konar þjóðar-meðvirkni.

Hræsni

Ég hef rætt við trúaða einstaklinga um hvað þeim finnst um stöðu kristinnar trúar hér í landi. Staðreyndin er sú að kristið fólk er margt orðið hrætt við að viðra skoðanir sínar opinberlega í dag eða tjá sig um mikilvægi trúar sinnar fyrir eigið líf. Það upplifir skoðanakúgun í landi þar sem heilagt nafn Guðs kristinna manna er þó lofsungið opinberlega við hátíðleg tækifæri, mikilvæga íþróttaviðburði og ekki síst í brekkunni á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. „Við lofum þitt heilaga nafn“, og svo er Guð gleymdur örfáum andartökum seinna. Sumir myndu kalla slíka hegðun hræsni.

Þykjustuleikur

Það er löngu búið að úthýsa Guði úr íslensku samfélagi. Það er hins vegar einhver þykjustuleikur í gangi. Haldið er í kristilegar hefðir eins og fermingar, hjónavígslur og skírnir; þjóðsöngurinn er eins og áður sagði sunginn við hátíðleg tækifæri, en ekki er Biblían, sem er þungamiðja kristinnar trúar, lengur tekin alvarlega. Það er óformlega búið að ákveða að Guð sé úreltur og er manneskjan búin að hækka sig í tign og hefur nú tekið að sér hans hlutverk. Það er búið að sparka í stoðir kristinnar trúar, og þökk sé öllu gáfaða fólkinu í landi okkar er Guð loksins orðinn óþarfur. Vel gert!

„Sykurpúðabiblían“

Það er kannski kominn tími til að gefin verði út Biblía sem inniheldur eingöngu það sem kristnir mega í raun trúa í dag (sem er ekki mikið), án þess að móðga aðra lífsskoðunarhópa, stjórnmálaflokka og þá einstaklinga sem eru í nöp við kristna trú. Best væri líklega að láta Biblíuna og svartan tússpenna bara ganga á milli þeirra sem þola ekki kristna eða gildi þeirra. Þannig gætu einstaklingar sem hafa „réttu svörin“ við öllum spurningum lífsins; siðferðislegum, sögulegum og trúarlegum, strikað yfir allt í Biblíunni sem veldur óþægindum, og hafist handa við að hanna endurbætta og hlutlausari kristna trú - trú sem gefur fólki ekki samviskubit þegar þarf að beygja reglur, haga til sannleikanum eða fara örlítið yfir siðferðismörk.

Biblían, eftir fjölda breytinga, yrði þá loks afhent hinum kristnu og þeim leyft að trúa afganginum – allt það sem gaf fólki slæma samvisku yrði loks endanlega úr sögunni! Þannig væri hægt að tryggja að kristnir nytu frelsis til að trúa öllu því sem „endurbætta“ Biblían; blessuð af íslenskum „meirihluta“, boðaði - þar sem búið væri að taka út það sem kristnir mega ekki lengur trúa.

Biblían yrði strax fljótlesnari og umhverfisvænni - og kristnir myndu þá hætta að hafa skoðanir á samlífi samkynhneigðra, fóstureyðingum, óhóflegri áfengisneyslu o.fl. Enn fremur myndu kristnir hætta að vera svona pirrandi! Ef aðeins kristnir hegðuðu sér ekki eins og Guð sé raunveruleg persóna og tækju ekki trú sína svona alvarlega!

Óraunhæfar kröfur

En það er ekki hægt að gera kröfur um að kristnir taki trú sinni ekki alvarlega, frekar en að hægt sé að segja íþróttamanni að taka ekki íþrótt sína alvarlega eða fjölskyldumanni að taka ekki fjölskyldu sína alvarlega. Það er einhvern veginn þannig með okkur mannfólkið, að þegar við finnum eitthvað sem gefur lífi okkar gildi, þá sleppum við ekki takinu á því.

Guð, ef hann er raunverulegur, yrði væntanlega sáttur við að leyfa þeim sem ekki vilja fylgja honum að ritskoða og leiðrétta ritninguna hans og endurmóta stefnu sína fyrir mannkynið sem hann skapaði og elskar. Þetta er svona svipað góð hugmynd og að láta Vinstri græna ritskoða stefnu Sjálfstæðisflokksins, ráða skákmeistara sem landsliðsþjálfara eða leyfa ungum og nýbökuðum ökuþórum að endursemja umferðarlögin.

Ofsóknir og einelti

Ef fólk ætlar sér hins vegar að vera almennt sammála um að Guð sé ekki til, og eigi þar af leiðandi ekki síðasta orðið í neinum kringumstæðum, þá er alveg eins gott að láta kné fylgja kviði og sparka honum út úr samfélaginu fyrir fullt og allt. Gætum gert þetta á Arnarhóli og haft flugeldasýningu í kjölfarið. Hugsanlega gætum við tekið aftur upp gamaldags ofsóknir á hendur kristnum til að þagga endanlega niður í þeim og tryggja þannig fullkomið trúleysi.

Til forna voru kristnir afhöfðaðir með exi í miklu frosti undir fullum mána - í dag endurtekur sagan sig í á öldum ljósvakans þar sem trúað fólk fær enn á ný ekki að halda haus. Það er markvisst tekið fyrir og afhöfðað með orðum fjölmiðlamanna. Ég hef sjálfur verið tekinn fyrir oftar en einu sinni af slíku fjölmiðlafólki sem gerir sér efnivið úr því að niðurlægja kristna einstaklinga í opinni dagskrá og hvetja hlustendur til að fylgja fordæmi sínu. Þar hef ég verið kallaður niðurlægjandi nöfnum á meðan vinir mínir og fjölskylda hlýða á. Reglulega er gert slíkt skipulagt stólpagrín að fólki sem ég þekki, fyrir það eitt að trúa því að Guð sé yfirleitt til. Margir myndu kalla slíkar óábyrgar aðfarir að ákveðnum persónum og trú þeirra „einelti“ eða „mismunun vegna trúarskoðana“. Persónulega finnst mér þetta óþroskaðar aðfarir og mjög ómerkilegar.

Virðing, mannréttindi og frelsi

En fólk kemst því miður upp með þetta í dag. Einhverra hluta vegna er meira mál fyrir fólki ef einstaklingar eru teknir fyrir vegna húðlitar, hneigðar, fötlunar, o.s.frv. Það virðist vera einhvers konar skotleyfi á hendur kristnum einstaklingum. Það er alla vega ljóst að fólk upplifir ekki að það sé trúfrelsi á Íslandi þegar það á á hættu að vera atað aur opinberlega fyrir trú sína – trú sem er í dag yfirlýst þjóðartrú lands okkar.

Ríkir raunverulegt trúfrelsi þegar fólk veit að um leið og það ætlar að nýta sér þetta frelsi er það niðurlægt opinberlega af fjölmiðlum eða talsmönnum annarra lífsskoðunarhópa, trúleysingjum eða öðrum sem deila ekki sömu trú?

Ríkir trúfrelsi ef þú mátt ekki deila þinni trúarsannfæringu opinberlega eða fylgja sannfæringu þinni án þess að vera lagður í einelti og niðurlægður?

Ef svo er, hvers konar trúfrelsi er það?

Manneskja sem greiðir alltaf sína skatta, stundar vinnu sína af alúð, kemur vel fram við náunga sinn og brýtur engin lög á að geta lifað lífi sínu, notið jafnra mannréttinda, jafnrar virðingar og sama frelsis og aðrir samlandar, óáreitt.

Skoðanakúgun

Að mínu mati er trúfrelsi á undanhaldi á Íslandi. Það þykir víst ekki lengur nægilega hentugt að fólk fái að trúa á Guð óáreitt. Við erum sem þjóð orðin svo ósammála kristinni trú og höfum sannfært okkur um að hún stangist á við þá stefnu sem við höfum markað okkur sem samfélag. Ólíklegasta fólk er orðið sérfræðingar um tilgang lífsins og tilvistarleysi Guðs.

Skoðanakúgun, sem er afleiðing þessarar þróunnar, hefur gert menningu okkar meðvirka og fólk fórnar sannfæringu sinni í ríkari mæli á altari meðvirkninnar. Fólk lætur stjórnast af yfirgangssemi ónærgætinna minnihlutahópa sem komast upp með að hafa allt á hornum sér.

En ef Biblían er þrátt fyrir allt orð Guðs til okkar, þá getum við auðvitað ekki sniðið hana eftir eigin vilja, frekar en að við getum sniðið umferðarlögin eftir hentisemi hvers og eins. Það er jafn bannað að fara yfir á rauðu ljósi á Snorrabrautinni og á Miklubrautinni - og gildir jafnt um þá sem aka um á negldum eða ónegldum dekkjum. Eitt verður að ganga yfir alla. Ef Guð er raunverulegur og ef hann er í raun skapari alls þá er nokkuð ljóst, að óháð efasemdum almennra borgara, mun hann eiga síðasta orðið.

Sama hvað öðrum finnst...

Fólk hefur kannski áttað sig á því að ég er ekki meðvirkur einstaklingur. Ég tel það vera kost; enda dáist ég að persónum sem þora að synda á móti straumum meðvirkninnar. Ef ég er sannfærður um eitthvað og trúi einhverju af einlægni, er enginn sem getur fengið mig til að snúa baki við því. Ég skammast mín aldeilis ekki fyrir mína trú á Guð og legg mig allan fram um að vera góður einstaklingur sem ber virðingu fyrir náunganum – meira að segja þeim sem hafa atvinnu af því að gera grín að mér og minni trú. Ég get ekki verið sáttur við sjálfan mig nema að ég sé sjálfur mér samkvæmur. Heiðarleiki skiptir mig máli og ef ég á að vera heiðarlegur við sjálfan mig og aðra verð ég að fylgja minni innri sannfæringu óháð því hvað öðrum finnst um hana – ég slekk ekki á henni eins og náttlampa.

Andleg íþrótt

Íþróttafólk þekkir líklega best hvað þarf að gera til að geta verið sátt við sjálft sig sem íþróttamenn. Meðvirkni og stefnuleysi er það sama og uppgjöf. Þegar maður er sannfærður um hvað maður vill og hverju maður trúir, dugir ekkert hálfkák. Maður þarf að setja sér skýr markmið út frá sinni sannfæringu, reyna eftir fremsta megni að fara eftir öllum ráðleggingum þjálfarans og keppa til sigurs. Trúin er andleg íþrótt – og sömu reglur gilda.

„Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær.“ (Biblían - I. Kor. 9:26)




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×