Erlent

Ætla að berjast til sigurs í Afganistan

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump segir að skyndilegt brotthvarf Bandaríkjahers úr Afganistan myndi skilja eftir tómarúm fyrir hryðjuverkamenn.
Donald Trump segir að skyndilegt brotthvarf Bandaríkjahers úr Afganistan myndi skilja eftir tómarúm fyrir hryðjuverkamenn. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að hersveitir Bandaríkjanna verði áfram í Afganistan þrátt fyrir fyrirætlanir forsetans um að kalla hermennina heim. Hann segir að skyndilegt brotthvarf Bandaríkjahers úr landinu myndi skilja eftir tómarúm fyrir hryðjuverkamenn, að því er fram kemur í frétt BBC.

Forsetinn ávarpaði samkomu í Fort Meyer-herstöðinni í Texas í nótt að íslenskum tíma. Þar sagðist hann einnig hafa ákveðið að framlengja dvöl hersveitanna í Afganistan og að þær myndu „berjast til sigurs“ í von um að forðast mistökin sem hefðu verið gerð í Írak.

„Bandaríkin munu vinna með afgönsku ríkisstjórninni, svo lengi sem við fáum að sjá skuldbindingu og framfarir,“ sagði Trump. Í svari Talíbana við yfirlýsingu Trump sagði að Afganistan yrði „enn annar grafreitur“ Bandaríkjanna ef þau kölluðu ekki hersveitir sínar heim.

Hermenn Bandaríkjahers hlýddu á ávarp forsetans í Fort Meyer-herstöðinni í Texas í gær.Vísir/AFP
Þá beindi Trump spjótum sínum einnig að Pakistan og sagði Bandaríkin ekki lengur myndu umbera það að pakistönsk yfirvöld „skytu skjólhúsi“ yfir öfgamenn. Hann sagði landið hafa „miklu að tapa“ ef það skipaði sér ekki með Bandaríkjunum í lið. Talsmaður pakistanska hersins sagði ekkert hæft í ásökunum Bandaríkjaforseta.

Trump neitaði að segja til um hversu margir hermenn til viðbótar, ef einhverjir, yrðu sendir til Afganistan en um 8000 hermenn eru staddir þar um þessar mundir. Þá sagði hann að búast mætti við aukningu í átökum við hryðjuverkasamtök á svæðinu, til að mynda Al-Qaeda og hið svokallaða Íslamska ríki, ISIS.

Áður hafði Trump lýst því yfir að hann teldi að kalla ætti hersveitir Bandaríkjanna í Afganistan heim. Átök milli ríkjanna hafa geisað síðan að hryðjuverk voru framin í New York-borg þann 11. september 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×