Enski boltinn

Carragher: Mané er mikilvægari en Coutinho

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Sadio Mané er mikilvægari fyrir Liverpool en Philippe Coutinho. Þetta segir Jamie Carragher, sparkspekingur á Sky Sports og fyrrverandi leikmaður Liverpool.

Mané skoraði eina mark leiksins þegar Liverpool tók á móti Crystal Palace á laugardaginn.

Coutinho var hins vegar ekki í hóp gegn Palace vegna bakmeiðsla. Framtíð Brassans er í óvissu en Barcelona vill fá hann og hefur gert nokkur tilboð í hann á síðustu dögum.

„Ég held að það sé hægt að líta þannig á, sérstaklega í ljósi þess hvernig Jürgen Klopp vill spila. Ég tel hann gríðarlega mikilvægan,“ sagði Carragher í Monday Night Football í gær, aðspurður hvort Mané væri mikilvægari fyrir Liverpool en Coutinho.

Carragher segir að ef Mané heldur áfram að skora og spila vel aukist áhugi annarra liða eflaust á honum.

„Ef hann heldur áfram á sömu braut fara stóru félögin í Evrópu að horfa til hans því hann hefur verið frábær síðan hann kom,“ sagði Carragher.

Hann telur að Liverpool muni ekki selja Coutinho vegna þess hversu fáa leikmenn félagið hefur keypt í sumar.

„Þeir munu halda Coutinho. Ég held að það sé engin spurning um það. Liverpool hefur staðið sig svo illa í félagaskiptaglugganum og geta ekki sleppt honum. Ef Liverpool hefði náð að landa Virgil van Dijk, Naby Keïta auk Mohamed Salah hefði hugsanlega verið auðveldara að selja hann,“ sagði Carragher.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×