Erlent

Kostnaðurinn við öryggisgæslu Trump að sliga leyniþjónustuna

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hefur verið á faraldsfæti og gist í eigin klúbbum um helgar. Hann er sagður hafa lýst Hvíta húsinu sem hreysi við meðlimi í einum golfklúbba sinna.
Trump hefur verið á faraldsfæti og gist í eigin klúbbum um helgar. Hann er sagður hafa lýst Hvíta húsinu sem hreysi við meðlimi í einum golfklúbba sinna. Vísir/AFP
Féð sem alríkisstjórn Bandaríkjanna ver til öryggisgæslu fyrir forsetann og fjölskyldu hans er uppurið fyrir árið, aðeins sjö mánuðum eftir að Donald Trump tók við embætti. Ástæðan er tíðar ferðir, stór fjölskylda og fjöldi eigna Trump víða um Bandaríkin.

Dagblaðið USA Today upplýsti um þetta í gær. Leyniþjónustan geti ekki lengur greitt þeim hundruð fulltrúum sínum sem þarf til að gæta öryggis Trump og fjölskyldu.

Leyniþjónustan hefur lagalega skyldu til að vernda forseta Bandaríkjanna og forseta hans öllum stundum. Fjárframlög til hennar eru hins vegar takmörkuð í fjárlögum alríkisstjórnarinnar.

Randolph Alles, forstjóri Leyniþjónustunnar, sagði við USA Today að fleiri en þúsund fulltrúar hafi komið að gæslunni á þessu ári. Launa- og yfirvinnukostnaður þeirra sé þegar farinn út fyrir þau framlög sem þjónustunni var ætlað fyrir allt árið.

Hver ferð í golfklúbbinn kostar jafnvirði hundruð milljóna króna

Trump hefur ferðast til eigna sinna í Flórída, New Jersey og Virginíu um nærri því hverja einustu helgi eftir að hann tók við embætti 20. janúar. Þá hafa börn hans ferðast innan og utan lands í viðskiptaerindum.

Alls njóta 42 einstaklingar í kringum forsetann verndar leyniþjónustunnar, þar á meðal átján skyldmenni Trump. Í tíð Baracks Obama gætti leyniþjónustan 31 einstaklings.

Í umfjöllun vefsíðunnar Vox kemur fram að áætlað sé að hver ferð Trump til Mar-a-Lago, golfklúbbs í eigu forsetans í Flórída, kosti leyniþjónustuna þrjár milljónir dollara. Það eru rúmar 316 milljónir íslenskra króna á núverandi gengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×