Erlent

Hryðjuverk í Turku: Mechkah hefur viðurkennt ódæðið

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn átján ára Mechkah dvelur nú á sjúkrahúsi eftir að hafa verið skotinn í fótinn af lögreglu.
Hinn átján ára Mechkah dvelur nú á sjúkrahúsi eftir að hafa verið skotinn í fótinn af lögreglu. Vísir/AFP
Marokkómaðurinn Abderrahman Mechkah hefur viðurkennt að hafa borið ábyrgð á árásinni í finnsku borginni Turku á föstudag. Hann neitar þó að hafa gerst sekur um morð.

Dómstóll í Finnlandi úrskurðaði Mechkah í tveggja mánaða gæsluvarðhald fyrr í dag.

Auk Mechkah hefur lögregla farið fram á gæsluvarðhald yfir þremur mönnum til viðbótar sem grunaðir eru um aðild að árásinni. Þá er fimmti maðurinn einnig grunaður um að hafa aðstoðað mennina. Allir eru þeir marokkóskir ríkisborgarar.

Hinn átján ára Mechkah dvelur nú á sjúkrahúsi eftir að hafa verið skotinn í fótinn af lögreglu og gaf hann skýrslu í gegnum myndsíma.

Tveir létu lífið og átta særðust í árásinni sem varð á Markaðstoginu í Turku á föstudaginn. Málið er rannsakað af lögreglu sem hryðjuverkaárás, en hún beindist sérstaklega að konum.

Mechkah hafði sótt um hæli í Finnlandi en umsókninni hafði verið hafnað. Samkvæmt finnska innanríkisráðuneytinu hafði maðurinn áfrýjað niðurstöðinni og var niðurstöðu þar beðið.

Lögregla í Suðvestur-Finnlandi hafði áður fengið ábendingu um að Mechkah hafi snúist til öfgabyggju og hafði komið málinu áfram til leyniþjónustu landsins (Skypo). Ekki var þó talin stafa sérstök hætta af Mechkah og var hann ekki á lista Skypo yfir 350 grunaða hryðjuverkamenn.

Þýska blaðið Deutsche Welle greinir frá því að maðurinn hafi komið til Finnlands frá Þýskalandi þar sem hann var grunaður um fjölda brota. Á hann að hafa notast við fjölda falsaðra persónuskilríkja þegar hann dvaldi í Þýskalandi. Lögregla í Þýskalandi var sömuleiðis með tvo til viðbótar í hópi hinna grunuðu á skrá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×