Lífið

Sveppi vinnur að sex þátta heimildarseríu um Eið: Mátti ekki borða í tíu klukkustundir í Barcelona

Stefán Árni Pálsson skrifar
Spennandi verkefni framundan hjá Sveppa og Eiði Smára.
Spennandi verkefni framundan hjá Sveppa og Eiði Smára.
Sverrir Þór Sverrisson, eða Sveppi eins og hann er bestur þekktur, vinnur nú að sex þátta heimildarseríu um knattspyrnumanninn Eið Smára Guðjohnsen og feril hans.

Eiður Smári er farsælasti knattspyrnumaður í sögu Íslands, en hann varð Englandsmeistari með Chelsea og Spánar- og Evrópumeistari með Barcelona. Auk þess sem hann lék með fjölda erlendra félaga á sínum ferli.

„Þetta hefur blundað í mér í smá tíma. Mig langaði alltaf að gera tveggja klukkustunda heimildarmynd en það er svolítið flókið verkefni að gera alvöru heimildarmynd,“ segir Sverrir í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Ekki bara dans á rósum

„Mér fannst þá liggja beinast við að gera bara einhverja þætti þar sem ég gæti líka troðið mér fyrir framan myndavélina. Ég fékk þessa hugmynd í fyrsta skipti þegar ég fór út til hans þegar hann var að spila með FC Brugge í Belgíu.“

Þar hafi Sveppi séð að atvinnumennskan væri alls ekki bara dans á rósum.

„Ég held að hann sé í raun búinn að búa í ferðatösku í mörg mörg ár,“ segir Sverrir sem mun tækla alla ævi Eiðs alveg frá því að þeir voru vinir í Breiðholtinu sem ungur drengir.

Gömlu vinirnir hittust allir og spiluðu fótbolta fyrir rúmlega viku og var það í raun fyrsti tökudagurinn. Þessi mynd var tekinn af þeim þá.



Pegasus framleiðir þættina.

„Þetta hefur allt til bruns að bera til að verða alveg frábært efni. Ég og Kristófer Dignus, sem er með mér í þessu, fórum með honum út til Barcelona fyrr í sumar og sátum með honum í sex klukkutíma og tókum upp á diktafón söguna alveg frá því að hann var í ÍR.“

Sveppi segir að þegar Eiður hafi verið hjá Chelsea hafi ekki verið hægt að fara út að borða með honum.

Vesen að vera í London

„Þetta var bara vesen, hann var svo frægur að það var ekki hægt að fara með honum neitt. Í fyrsta lagi fór hann bara aldrei í bæinn, hann gat ekkert farið bara á Oxford Street eins og ekkert sé. Hann var bara meira í sínu hverfi og svo þegar maður fór út að borða með honum var hann stundum látin alveg í friði en þegar einhver kom auga á hann sem elskaði enska boltann þá varð hann að koma og spjalla við Eið.“

Sveppi segir að þegar Eiður samdi við Barcelona hafi hann ekki mátt borða í tíu klukkustundir meðan samningaviðræður voru í gangi. Læknisskoðun var framundan og Eiður varð að vera á fastandi maga. 

Hér að neðan má hlusta á viðtalið í heild sinni.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×