Erlent

Geimfarar sáu skugga tunglsins yfir Bandaríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Kolsvartur skuggi tunglsins yfir Bandaríkjunum í gær.
Kolsvartur skuggi tunglsins yfir Bandaríkjunum í gær. Alþjóðlega geimstöðin
Almyrkvinn á sólu sem sást í stórum hluta Bandaríkjanna í gær heillaði milljónir landsmanna. Aðeins sex manneskjur voru hins vegar í þeirri einstöku aðstöðu að sjá skugga tunglsins falla á Bandaríkin úr geimnum.

Fólk safnaðist saman víðsvegar um Bandaríkin til að berja almyrkvann augum í gær. Þetta var enda í fyrsta skipti í tæpa öld sem almyrkvi gekk þvert yfir Bandaríkin.

Geimfararnir sex sem eru um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni á braut um jörðu sáu ekki tunglið ganga fyrir sólina en þeir gátu hins vegar notið þess að fylgjast með skugga þess þvera Bandaríkin.

Myndir af skugganum birtu þeir á samfélagsmiðlum í nafni Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.

Almyrkvinn gekk þvert yfir Bandaríkin frá Oregon-ríki á vesturströndinni til Suður-Karólínu á austurströndinni þar sem honum lauk um níutíu mínútum eftir að hann hófst, að því er segir á Stjörnufræðivefnum.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má einnig sjá skugga tunglsins á jörðinni eins og hann kom fyrir sjónir geimfaranna í Alþjóðlegu geimstöðinni.


Tengdar fréttir

Beðið í ofvæni eftir almyrkva

Þetta er í fyrsta skipti síðan 1918 sem tunglið gengur í veg fyrir sólu og veldur almyrkva af þessu tagi þvert yfir Bandaríkin.

Milljónir upplifðu almyrkva á sólu

Almyrkvinn sást fyrst frá Oregon-ríki klukkan korter yfir tíu að staðartíma, eða korter yfir fimm að íslenskum tíma. Lauk honum í Suður-Karólínu um klukkan korter í sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×