Umfjöllun og viðtöl: FH 1 - 1 ÍBV | Lítil von eftir fyrir Eyjakonur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
FH-stúlkur unnu fyrir stiginu í Kaplakrika í dag.
FH-stúlkur unnu fyrir stiginu í Kaplakrika í dag. vísir/ernir
ÍBV mistókst að halda lífi í vonum sínum í að ná Þór/KA á toppi Pepsi deildar kvenna þegar þær gerðu jafntefli 1-1 við FH í Kaplakrika. Þór/KA vann sigur á Akureyri svo munurinn á milli liðanna er nú orðinn 10 stig, og aðeins fjórir leikir eftir.

Heimakonur í FH mættu mjög vel til leiks og voru sterkari aðilinn lungann úr fyrri hálfleik. Þær náðu þó ekki að skapa sér nein hrein dauðafæri, en voru líklegri þó ÍBV ætti nokkrar sóknir líka.

Eyjakonur sýndu þó styrk sinn þegar Sóley Guðmundsdóttir átti fína fyrirgjöf inn í teiginn, Kristín Erna Sigurlásdóttir lagði boltann út á Rut Kristjánsdóttir sem hamraði boltanum í netið. 0-1 fyrir ÍBV eftir 37. mínútna leik.

FH var þó ekki lengi að svara. Caroline Murray fær sendingu upp hægri kantinn sem virðist ekki vera mikil hætta af. Adelaide Anne Gay, markvörður ÍBV, ákveður hins vegar að fara í úthlaup og reynir tæklingu á Caroline fyrir utan markteiginn. Caroline stekkur upp úr tæklingunni og skýtur boltanum í autt markið og jafnar fyrir FH. Vel gert hjá Caroline að ná skotinu á markið, var í nokkuð þröngu færi, en þetta mark skrifast algjörlega á Adelaide í markinu.

ÍBV komu mun sterkari til leiks í seinni hálfleikinn og pressuðu FH-inga stíft fyrstu mínútur hálfleiksins. Heimakonur stóðust þó pressuna og minntu nokkrum sinnum rækilega á sig og hittu meðal annars tvisvar í tréverkið.

Allt var þó fyrir ekki og hvorugu liðinu tókst að bæta við marki í seinni hálfleik og við sat, 1-1 jafntefli niðurstaðan.

Afhverju varð jafntefli?

Hvorugt liðið náði að skora úrslitamark. Eyjakonur komu sterkar út eftir leikhlé en tókst ekki að nýta sér pressuna sem þær voru með á FH-ingum. Að sama skapi voru FH konur hættulegar undir enda leiksins en tókst ekki að koma boltanum í netið.

Jafntefli er líklega sanngjörn niðurstaða úr þessum leik, bæði lið hefðu getað stolið sigrinum en baráttuleikur þar sem erfitt var að gera upp á milli liða.

Hverjar stóðu upp úr?

Megan Dunnigan var áberandi hjá FH, sérstaklega undir lok leiksins. Sömuleiðis átti Erna Guðrún Magnúsdóttir stórgóðan leik í vörninni hjá FH og náði að halda skæðasta markaskorara deildarinnar, Cloé Lacasse, alveg niðri í leiknum. Alda Ólafsdóttir var mjög dugleg fram á við hjá FH en vantaði meiri hjálp til að gera eitthvað við boltann.

Hjá ÍBV var Rut Kristinsdóttir einna best. Kristín Erna Sigurlásdóttir stóð sig einnig ágætlega, var duglegust fram á við fyrir Eyjakonur.

Hvað gekk illa?

Færanýting og að skapa almennileg færi var það sem helst var ábótavant hjá liðunum í dag. Lengst af í leiknum voru ákvarðanatökur á síðasta þriðjungi að bregðast liðunum, sérstaklega hjá FH-ingum sem voru oft fáliðaðar í sókninni.

Hvað gerist næst?

FH fer í Garðabæinn í heimsókn til Stjörnunnar fimmtudaginn 31. ágúst. Stjarnan er um þessar mundir í Króatíu að spila í undankeppni Meistaradeildar Evrópu svo það gæti verið lag fyrir FH að sækja stig ef einhverrar þreytu verður að gæta hjá Garðbæingum eftir ferðalagið.

ÍBV mætir Þór/KA þar sem verður að duga eða drepast fyrir ÍBV ætli þær sér að reyna að hrifsa Íslandsmeistaratitilinn úr höndum Þórs/KA.

Dean Sibons: Aldrei segja aldrei

„Við sýndum góð viðbrögð við leiknum í síðustu viku (2-2 jafnteflið við Grindavík), í því samhengi að við vorum ekki að láta það fá á okkur að missa leikinn í jafntefli seint í leiknum. Við vorum betri í byrjun leiks og hefðum getað nýtt nokkur færi betur strax á fyrstu mínútunum,“ sagði Dean Sibons, aðstoðarþjálfari ÍBV, eftir leikinn.

„FH á hrós skilið, þær áttu góðar rimmur í leiknum, en við náðum að standa það af okkur og leikurinn opnaðist upp, en við náðum ekki að nýta það. Stundum getur maður ekki unnið leikinn og þá þarf að passa að hann tapist ekki. Í lokin var jafntefli sanngjörn niðurstaða.“

ÍBV hefur nú gert þrjú jafntefli í röð, ef með er talinn bikarleikurinn gegn Grindvíkingum, en Dean hafði ekki miklar áhyggjur af því. „Við höfum sýnt það í gegnum tímabilið að við getum skorað. Við þurfum að fínstilla leik okkar, sérstaklega á miðjunni, og ná að halda boltanum betur. Nú þurfum við bara að halda áfram, þó það séu þrjú jafntefli í röð þá höfum við ekki tapað í þrjá mánuði.“

„Aldrei segja aldrei. Þetta er ekki búið fyrr en stærðfræðin segir það,“ sagði Dean aðspurður hvort þær hefðu kastað möguleikanum á titlinum frá sér í kvöld. „Við munum alltaf halda áfram. Þessar stelpur eru gerðar úr stáli og vita ekki hvað það er að hætta. Ef við værum ekki að skapa okkur neitt væri það áhyggjuefni, en við erum að skapa færi og nú þarf bara að taka þau og klára leikina.“

Orri Þórðarson: Fyrirfram fín úrslit

„Við höfum ekki tekið stig á móti þessum toppliðum, en ég vissi að það væri bara tímaspursmál hvenær kæmi að því,“ sagði Orri Þórðarson, þjálfari FH, eftir leikinn. „Fyrir fram hefði stig verið fín úrslit, en miðað við hvernig leikurinn þróaðist þá fannst mér við mun líklegri til að taka öll stigin.“

„Mér fannst frammistaðan nokkuð góð. Sérstaklega byrjuðu þær seinni hálfleikinn sterkan, en eftir það fannst mér við taka leikinn yfir og hefðum átt að klára þetta.“

Guðný Árnadóttir var tekin af velli í hálfleik eftir að hafa fengið boltann í brjóstkassan snemma leiks fyrri hálfleiks. Spurður út í ástand hennar sagði Orri: „Hún treysti sér ekki til að halda áfram. Var illt í rifbeinunum og harkaði af sér út fyrri hálfleikinn en treysti sér ekki í að fara inn í seinni hálfleikinn.“ Orri kvaðst ekki vita hver alvarleiki málsins væri, en möguleiki er á að um brákun á rifbeinum sé að ræða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira