Viðskipti innlent

Tekjusamdráttur Nýherja mikil vonbrigði

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Tekjur upplýsingatæknifyrirtækisins Nýherja á öðrum fjórðungi ársins voru mun lægri en hagfræðideild Landsbankans hafði búist við.
Tekjur upplýsingatæknifyrirtækisins Nýherja á öðrum fjórðungi ársins voru mun lægri en hagfræðideild Landsbankans hafði búist við.
Tekjur upplýsingatæknifyrirtækisins Nýherja á öðrum fjórðungi ársins voru mun lægri en hagfræðideild Landsbankans hafði búist við og ollu vonbrigðum. Hagfræðideildin hafði gert ráð fyrir kröftugum 16,9 prósenta söluvexti á tímabilinu en niðurstaðan varð hins vegar 4,9 prósenta samdráttur.

Tekjur félagsins námu 3.608 milljónum króna á öðrum fjórðungi ársins borið saman við 3.794 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Hagfræðideildin hafði búist við að tekjurnar yrðu 4.436 milljónir á tímabilinu.

Þrátt fyrir tekjusamdráttinn jókst hagnaður félagsins um 127 prósent á fjórðungnum og nam alls 166 milljónum króna.

Hagfræðideildin bendir á að stjórnendur Nýherja hafi skýrt samdráttinn með vísan til gengisstyrkingar krónunnar og þess að fáir stórir samningar hafi verið gerðir á fjórðungnum. Telur hagfræðideildin samdráttinn þó koma á óvart í ljósi þess að á fyrsta fjórðungi ársins hafi gengi krónunnar einnig styrkst verulega án þess að til tekjusamdráttar kæmi.

Hagfræðideildin gagnrýnir enn fremur lélega upplýsingagjöf af hálfu stjórnenda Nýherja. Segir hún að það væri óskandi að stjórnendurnir bættu upplýsingagjöfina um tekjur einstakra eininga Nýherjasamstæðunnar. „Ekkert samræmi er í því hvernig staðið er að þeirri upplýsingagjöf og því erfitt og oft ónákvæmt að bera saman einstaka fjórðunga og byggja á upplýsingagjöf félagsins,“ segja sérfræðingar hagfræðideildarinnar.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×