Íslenski boltinn

Komst í markmannsskóla með hjálp mömmu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton með Hönnu móður sinni. Mikið Liverpool-fólk eins og sjá má.
Anton með Hönnu móður sinni. Mikið Liverpool-fólk eins og sjá má. mynd/andrea ósk
Veturinn áður en Anton Ari Einarsson gekk í raðir Vals var hann um tíma í markmannsskóla í Englandi og æfði með nokkrum liðum þar í landi, þ.á.m. Manchester City og Bolton. Hann fékk góða hjálp frá móður sinni, Hönnu Símonardóttur, við að komast út í markmannsskólann sem er rétt fyrir utan Wigan.

„Ég fór út rétt fyrir jól. Ég var búinn í prófum í skólanum og átti smá aukapening. Ég ákvað því að reyna að komast út í eitthvað svona. Mamma er búin að halda utan um og vinna mikið fyrir Liverpool-skólann á Íslandi sem er haldinn í Mosfellsbæ. Hún hafði samband við einn af markmannsþjálfurunum sem var með í þeim hóp og hann benti mér á þennan skóla sem er á vegum manns sem heitir Billy Stuart. Ég stökk út í viku fyrir jólin og hann kom mér að hjá Everton. Kallinn vissi eitthvað í sinn haus og hafði góð tengsl. Og eftir áramót fór ég aftur út,“ sagði Anton sem var úti í rúma þrjá mánuði og æfði tvisvar á dag.

„Þetta hjálpaði mikið og var mjög dýrmæt reynsla,“ sagði Anton. En hvernig markmannsþjálfun fékk hann þegar hann var yngri?

„Til að byrja með var enginn fastur markmannsþjálfari hjá Aftureldingu heldur voru menn fengnir til að koma í nokkrar vikur til að vera með okkur. Síðan kom Þorsteinn Magnússon og byrjaði að þjálfa flokkinn minn og var með markmannsþjálfun. Hann kenndi mér gríðarlega mikið. Þjálfunin úti er ekkert gríðarlega ólík því sem maður hefur kynnst hérna heldur bara í miklu meiri mæli og getustigið hærra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×