Innlent

Fimmtíu löxum var bjargað úr sjálfheldu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásgeir segir að starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafi unnið fagmannlega að því að bjarga fiskinum og verið snöggir að því. Vísir/Vilhelm
Ásgeir segir að starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafi unnið fagmannlega að því að bjarga fiskinum og verið snöggir að því. Vísir/Vilhelm
Um 50 löxum hefur verið bjargað úr sjálfheldu úr Árbæjarkvísl neðan við Árbæjarstífluna síðustu daga. Venjulegast eru settar grindur fyrir þessa kvísl til þess að varna því að laxinn fari þangað upp og fari heldur rétta leið upp árnar.

Ásgeir Heiðar leiðsögumaður, sem þekkir Elliðaárnar vel, segir hins vegar að meira vatn hafi verið í ánum í sumar en menn muna og því hafi ekki verið nein leið til þess að koma grindunum fyrir. „Fyrir utan það þá hefði flætt yfir þær. Þannig að laxinn komst þarna inn og varð innlyksa. Hann kemst ekki upp úr kvíslinni og laxinn fer ekki niður þarna. Hann hyggur bara á uppleið,“ útskýrir Ásgeir.

Ásgeir segir að menn frá Hafrannsóknastofnun hafi séð um að bjarga löxunum. Þeir tóku þrjátíu á mánudaginn og sautján fyrir helgi. Hann segir að þetta hafi verið miðlungsstærð af löxum, líklegast frá fjórum og upp í sjö pund.

 

 

Ásgeir segir að starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafi unnið fagmannlega að því að bjarga fiskinum og verið snöggir að því. Fréttablaðið/Vilhelm
Laxarnir voru veiddir í net og svo fluttir í plastfötum á réttan stað. „Þetta var mjög fagmannlega gert og mjög snöggt þannig að þeim varð ekkert meint af. Og líklega er þetta góður tími til að gera þetta vegna þess að á þessum tíma er ekki laust á þeim hreistrið. Það hefði verið verra að gera þetta fyrr því að þá hefði verið laust á þeim hreistrið og líklegast komist sýking í ef mikið hefði verið hreyft við þeim,“ segir Ásgeir.

Ásgeir segir að vatnsstaðan í Elliðaánum hafi verið mjög óvenjuleg í sumar. „Það er ekki fyrr en núna sem vatnsstaðan fer að verða normal. Það er vegna þess að grunnvatnsstaðan á Hellisheiðinni var svo svakaleg. Það var ekkert frost í vetur og það safnaðist svo mikið vatn saman þar. Og það hefur allt skilað sér.“

Ásgeir segir að einu sinni í manna minnum hafi þurft að bjarga laxi úr þessari kvísl en ekki er víst af hvaða ástæðum það var. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×