Innlent

Segir stjórnvöld ekki hafa áhuga á öryggi barna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hoppukastalinn var settur upp í tilefni af bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum í Hveragerði. Hoppukastalinn á myndinni er ekki kastalinn sem um ræðir.
Hoppukastalinn var settur upp í tilefni af bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum í Hveragerði. Hoppukastalinn á myndinni er ekki kastalinn sem um ræðir.
Brýnt er að stjórnvöld herði reglugerð í tengslum við notkun hoppukastala til að koma í veg fyrir atvik líkt og það sem átti sér stað í Hveragerði um helgina er börn voru hætt kominn er hoppukastali féll á hliðina. Þetta segir Herdís L. Stoorgard, verkefnastjóri hjá Miðstöð slysavarna barna sem telur að stjórnvöld hafi takmarkaðan áhuga á öryggi barna.

Það er því miður stórt vandamál á Íslandi að stjórnvöld hafa engan áhuga á öryggi barna. Ég hef reynt það í mörg ár að fá umhverfisráðuneytið sem er ábyrgt fyrir leiksvæðum til þess að endurskoða reglugerðina og taka inn fleiri þætti, svo sem þetta, hoppukastala til opinberrar notkunar,“ sagði Herdís í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Ragnhildur Gísladóttir, móðir tveggja stúlkna sem voru í hoppukastalanum þegar hann fór á hliðina, gagnrýndi í samtali við Vísi í gær að hoppukastalinn sem um ræðir hafi ekki verið bundinn niður sem og yfirsjón þeirra sem sáu um hoppukastalann að passa að of mörg börn færu ekki inn í kastalann í einu.

Reglugerðin sem Herdís vísar til snýr að öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim og á að tryggja að leikvallatæki og leiksvæði séu hönnuð, frágengin og þeim viðhaldið á öruggan og viðurkenndan hátt. Herdís vill að reglugerðin nái einnig til hoppukastala enda sé vel þekkt að börn geti slasast við leik í slíkum leiktækjum, sé fyllsta öryggis ekki gætt.

„Ef að þessar reglur myndu ná yfir þetta þá yrði til dæmis að festa þetta niður og það þyrfti að huga mjög vel að því hvar þetta er staðsett,“ segir Herdís sem að vitað sé um þrjú banaslys í heiminum þar sem hoppukastalar hafi tekist á loft í roki.

Hlusta má á allt viðtalið við Herdísi hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×