Erlent

Komu í veg fyrir að þota yrði sprengd upp með Barbie-dúkkum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ástralska lögreglan gerði mikla rassíu í lok júlí gegn einstaklingum sem grunaðir eru um tengsl við hryðjuverkasamtök.
Ástralska lögreglan gerði mikla rassíu í lok júlí gegn einstaklingum sem grunaðir eru um tengsl við hryðjuverkasamtök. Vísir/Getty
Leyniþjónustu Líbanons kom í veg fyrir að hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki tækist að granda flugvél með sprengjum földum í Barbie-dúkkum og kjötvinnsluvél í júlí síðastliðnum.

Þetta kom fram í máli innanríkisráðherra Líbanons, Nouhad Machnouk, sem sagði leyniþjónustu landsins hafi hindrað það að sprengjurnar rötuðu um borð í vélina. Maðurinn sem flutti sprengjurnar hafi verið handtekinn á flugvellinum í Beirút, höfuðborg Líbanons, við komuna frá Ástralíu en vélin sem hann hugðist sprengja flaug frá Sydney til Abu Dhabi, höfuðborgar Sameinuðu arabísku furstadæmanna (SAF).

Hann hafði í hyggju að sprengja vélina 20 mínútum eftir flugtak og hafði hann komið sprengjuefnunum fyrir í farangri sínum. Hann hafi upphaflega ætlað að taka þau með sér í handfarangri en var beðinn um að innrita töskuna sína því hún reyndist um 7 kílóum þyngri en leyfilegt er. Það er talið hafa riðið baggamuninn.

Innanríkisráðherra Líbanons segir fjóra menn hafa verið handtekna í tengslum við málið, allir með ástralskt og líbanskt ríkisfang. Einn þeirra er sagður hafa starfað fyrir Íslamska ríkið í Sýrlandi.

Ekki hefur greint frá því á vegum hvaða flugfélags flugið var en Emirates Airlines, þjóðarflugfélag SAF, hefur sagst taka þátt í rannsókninni.

Um 400 farþegar voru í vélinni, þar af voru 120 Líbanir. Innanríkisráðherra segir mennina fjóra hafa ætlað að refsa SAF og Ástralíu fyrir þátttöku sína í loftárásum á Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×