Fótbolti

Landsliðsþjálfarinn nýtur stuðnings sambandsins þrátt fyrir ásakanir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aluko í leik með Chelsea.
Aluko í leik með Chelsea. Vísir/Getty
BBC greinir frá því að Mark Sampson, þjálfari enska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, njóti stuðnings enska knattspyrnusambandsins vegna ásakana um að hann hafi verið með kynþáttafordóma gagnvart fjölskyldu leikmanns í liðinu.

Eniola Aluko er leikmaður Chelsea og á að baki 102 landsleik fyrir England. Hún steig nýverið fram og sagði Sampson hafa sagt við sig að gæta þess að fjölskylda hennar, sem er frá Nígeríu, myndi ekki koma með ebólaveiruna með sér á landsleiki.

Chelsea hefur lýst stuðningi við Aloko. Enska sambandið hefur áður rannsakað ásakanir hennar og komst að því að Sampson hafði ekki rangt við. Heimildir BBC herma að forráðamenn sambandsins munu ekki breyta afstöðu sinni nú.

Málið hefur vakið mikla athygli á Englandi en þetta er ekki í fyrsta sinn sem að Sampson er sakaður um kynþáttafordóma, en hann á að hafa spurt þeldökkan leikmann hversu oft hún hafi verið handtekin.

Enska sambandið framkvæmdi líka rannsókn vegna þessa en komst að sömu niðurstöðu.

Aluko segir að rannsókn enska sambandsins hafi verið gölluð og ljóst að málið er komið í mikla flækju. Hún hefur ekki verið valin í enska landsliðið síðan hún kvartaði undan hegðun Sampson við knattspyrnusambandið í maí í fyrra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×