Erlent

Fellibylur herjar á íbúa Hong Kong og Makaó

Atli Ísleifsson skrifar
Óveðrið er sagt það versta í Hong Kong í fimm ár.
Óveðrið er sagt það versta í Hong Kong í fimm ár. Vísir/AFP
Þrír hafa látið lífið á kínversku eyjunni Makaó eftir að fellibylurinn Hato gekk þar yfir.

Sömuleiðis hafa íbúar Hong Kong hafa verið varaðir við fellibylnum, en þar hafa tré rifnað upp með rótum og byggingakranar og stillansar fokið. Þá hafa miklar öldur skollið á land og flætt yfir láglend svæði.

Búið er að aflýsa mörg hundruð flugferðum, loka skólum og kauphöll, ásamt því að vegir eru margir lokaðir.

Talsmenn yfirvalda segja að á fjórða tug manna hafi til þessu þurft að leita á sjúkrahús eftir að hafa slasast. Mörg hundruð manna hafa leitað skjóls í neyðarmiðstöðvum.

Óveðrið er sagt það versta í Hong Kong í fimm ár. Hato gekk fyrst á land við borgina Zhuhai á meginlandi Kína.

Þetta er í þriðja sinn sem hæsta stigs viðvörun hefur verið gefin út í Hong Kong frá því að Hong Kong varð hluti af Kína árið 1997. Áður hafði svæðið verið bresk nýlenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×