Körfubolti

Fyrir fimm árum töpuðu þeir með 50 stigum en hvað gerist í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson var með í leiknum fyrir fimm árum.
Haukur Helgi Pálsson var með í leiknum fyrir fimm árum. Vísir/Andri Marinó
Íslenska körfuboltalandsliðið spilar í kvöld síðasta undirbúningsleik sinn fyrir Evrópumótíð í körfubolta sem hefst með leik á móti Grikklandi eftir rúma viku.

Síðasta próf íslensku strákanna er á móti gríðarlega sterku landsliði Litháa. Íslenska liðið fór beint til Litháen frá Ungverjalandi þar sem liðið tapað tvisvar sinnum um síðustu helgi.

Íslenska liðið hefur þar með tapað þremur síðustu undirbúningsleikjum sínum eftir að hafa unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjunum.

Það eru rúm fimm ár síðan að Ísland og Litháen mættust síðast og þá vann Litháen með 50 stiga mun, 101-51. Litháernir voru þá á fullu að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í London. Peter Öqvist þjálfaði liðið þá en nú er Craig Pedersen með liðið.

Það eru margir spenntir að sjá hvað íslenska liðið hefur bætt sig á þessum fimm árum en góður mælikvarði á það er leikurinn í kvöld.

Sjö leikmenn íslenska liðsins í dag spiluðu á móti Litháum 24. júlí 2012. Það voru þeir: Hlynur Bæringsson (13 stig), Jón Arnór Stefánsson (12), Pavel Ermolinskij (10), Haukur Helgi Pálsson (4), Ægir Þór Steinarsson (3), Logi Gunnarsson (2) og Brynjar Þór Björnsson.

Hlynur Bæringsson og Logi Gunnarsson munu báðir leika sinn fjórða landsleik á móti Litháen í kvöld.

Leikur Íslands og Litháen hefst klukkan 19.30 eða klukkan 16.30 að íslenskum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×