Innlent

Neitar að hafa ætlað að bana manni við Metro

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árásin átti sér stað að kvöldi 3. apríl fyrir utan veitingastaðinn Metro í Kópavogi.
Árásin átti sér stað að kvöldi 3. apríl fyrir utan veitingastaðinn Metro í Kópavogi. Já.is
Sautján ára piltur neitar sök um að hafa ætlað að bana manni á fertugsaldri við hamborgarastaðinn Metro við Smáralind í apríl síðastliðnum. Málið var þingfest í júlí.

Hæstiréttur hefur staðfest að pilturinn skuli vistaður á viðeigandi stofnun til föstudagsins 15. september næstkomandi. Aðalmeðferð í málinu er fyrirhuguð nokkrum dögum fyrr.

Piltinum, sem er ákærður fyrir tilraun til manndráps, er gefið að sök að hafa stungið annan mann með hnífi í bakið á Metro að kvöldi 3. apríl. Þar var hann í félagi við annan mann.

Árásin að tilefnislausu

Að sögn starfsfólks Metro var maðurinn að fá sér að borða þegar piltarnir tveir komu inn á staðinn og höfðu í hótunum við hann, að því er virðist að tilefnislausu. 

Þeir fóru svo rétt út fyrir dyragætt staðarins þar sem ákærði stakk manninn. Maðurinn kom í kjölfarið aftur inn og bað viðstadda um að hringja á sjúkrabíl. Piltarnir flúðu af vettvangi en voru handteknir af lögreglu skömmu síðar. 

Pilturinn játaði í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa stungið manninn sem hlaut lífhættulega blæðingu í brjóst- og kviðarholi, djúpan skurð á vinstra nýra og minniháttar loftbrjóst.

Samkvæmt lögum má ekki úrskurða sakborninga yngri en átján ára í gæsluvarðhald nema önnur úrræði standi ekki til boða. Í samræmi við það var ákveðið að vista piltinn á stofnun en ekki í fangelsi á meðan þess er meðið að aðalmeðferð í málinu fari fram.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×