Innlent

1.200 börn í Reykjavík bíða eftir plássi á frístundaheimili

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skólahald í grunnskólum Reykjavíkur er víðast hvar hafið. Fyrstu bekkingar mæta þó margir hverjir fyrst til leiks á morgun.
Skólahald í grunnskólum Reykjavíkur er víðast hvar hafið. Fyrstu bekkingar mæta þó margir hverjir fyrst til leiks á morgun. Vísir
Um 1.200 börn eru nú á biðlista eftir plássi á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. Skólastarf í grunnskólum borgarinnar er ýmist hafið eða hefst í vikunni. Ljóst er að biðin eftir plássi fyrir yngstu nemendur grunnskólanna valda auknu álagi og vinnutapi fyrir foreldra að því er segir í umfjöllun um málið á heimasíðu BSRB.

Vandræði við mönnun frístundaheimila eru árviss þegar skólar byrja. Staðan hjá frístundaheimilum Reykjavíkurborgar er svipuð og á sama tíma í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar. Um 200 starfsmenn vantar til starfa í hlutastörf. Það þýðir að aðeins hefur verið hægt að samþykkja umsóknir um 2.000 af þeim 3.200 börnum sem sótt var um pláss fyrir þetta haustið.

Staðan er svipuð í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og heildartala barna á biðlista á höfuðborgarsvæðinu öllu að líkum lætur talsvert hærri en 1200. Staðan er mismunandi milli frístundaheimila, á sumum gengur ágætlega að ráða starfsmenn en á öðrum vantar enn fjölda starfsmanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Skóla- og frístundasviði borgarinnar, sem vísað er til á vef BSRB, er nú verið að skoða hvernig hægt er að bæta starfsumhverfið til að gera störfin meira aðlaðandi. Þá hefur verið auglýst víða eftir starfsmönnum, en þeir eru flestir háskólanemar eða nemar úr elstu árgöngum menntaskóla, sem vinna á frístundaheimilum með skóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×