Erlent

Vill kaupa Twitter til að losna við Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sparar sjaldan stóru orðin á Twitter.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sparar sjaldan stóru orðin á Twitter. Vísir/EPA
Valerie Plame Wilson, fyrrverandi starfsmaður CIA, leitar nú að fjármagni með hjálp hópfjármögnunar til þess að kaupa samfélagsmiðilinn Twitter. Markmiðið að sparka Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, af Twitter. AP greinir frá.

Trump notar samfélagsmiðilinn óspart til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og þykir sumum nóg um, þar á meðal Wilson, sem komst í heimsfréttirnar árið 2003 þegar embættismenn George W. Bush afhjúpuðu hana sem starfsmann CIA til þess að koma óorði á eiginmann hennar sem gagnrýnt hafði Bush.





Valerie Plame Wilson starfaði hjá CIA um árabil.Vísir/Getty
Ætlar Wilson sér að safna einum milljarði bandaríkjadollara, því sem nemur rúmlega 100 milljörðum íslenskra króna, til þess að eignast meirihluta í Twitter. Miðað við markaðsvirði Twitter er þó einn milljarður bandaríkjadollara ekki nóg til þess að eignast meirihluta í fyrirtækinu.

Takist Wilson hins vegar ætlunarverk sitt yrði hún stærsti einstaki hluthafinn í Twitter og því ljóst að hún myndi öðlast töluverð völd innan fyrirtækisins.

Enn er þó mjög langt í land, Wilson hefur aðeins safnað um tíu þúsund dollurum, því sem nemur um einni milljón króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×