Innlent

Ekki fordæmi fyrir því að fangelsisdómar styttist við játningu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Thomas Møller, sem ákærður er fyrir að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttir bana, neitar enn sök í málinu.
Thomas Møller, sem ákærður er fyrir að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttir bana, neitar enn sök í málinu. Vísir/eyþór
„Flestir morðingjar eru ekki einhver skrímsli, endilega, heldur venjulegt fólk,“ þetta segir Margrét Valdimarsdóttir, forstöðumaður rannsóknarseturs í afbrotafræðum um það sem sé sérstakt í máli Thomas Møller Olsens. Hún segir, án þess að vilja að fullyrða um of, að flest bendi til þess að hann sé kaldrifjaður morðingi og að mögulega eigi meira eftir að koma í ljós.

Margrét var gestur hjá Frosta Logasyni í útvarpsþættinum Harmageddon á X-977.

„Hvað hefur hann upp úr því að játa?“

Frosti, annar tveggja þáttastjórnanda Harmageddon, spurði afbrotafræðinginn að því hvers vegna Thomasar Møller sé ekki búinn að játa á sig verknaðinn í ljósi þess að sannanirnar hrannast upp. Margir hafa velt fyrir sér hvers vegna játning liggi ekki fyrir í málinu. „Er eðlilegt að menn reyni út í ystu æsar að sverja þetta af sér?“ Margrét kýs að forðast orðið „eðlilegt“ í þessu samhengi en bendir á að það sé síst undarlegt í ljósi þess að hérlendis er ekki fordæmi fyrir því að fangelsisdómar styttist við játningu. Margrét varpar fram spurningunni „hvað hefur hann upp úr því að játa?“ og bætir við:

Margrét Valdimarsdóttir segir málið vera bæði sérstakt og ógeðfellt.Margrét Valdimarsdóttir
„Þegar ég lít yfir þau mál og þá dóma sem hafa átt sér stað á undanförnum áratugum á Íslandi að þá virðast þeir sem játa, ekki fá skemmri fangelsisdóm,“ segir Margrét.

Sérstakt mál fyrir margar sakir

Margrét segir að málið sé sérstakt fyrir margar sakir. Á Íslandi er morðtíðni með því lægsta sem þekkist í heiminum og þá sé málið sérstakt að því leyti að engin tengsl eru á milli fórnarlambs og meints geranda. 

„Þau morð sem hafa verið framin hérna á síðustu áratugum eru þess konar að þau eru framin oft í ölæði og þar þekkjast fórnarlambið og gerandi. Þetta er eins konar „stundarbrjálæði,“ ef það má kallað það.“ 

Þá segir Margrét að það þekkist varla að menn leggi svona mikið á sig til að hylja slóð sína. Oft sé þetta „slys“ að því leyti að „viðkomandi ætlar ekki að myrða en ætlar að meiða og viðkomandi játar,“ segir Margrét.

Þessa dagana stendur yfir aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Thomas Frederik Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness. Thomas er ákærður fyrir að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana. Birna hvarf aðfaranótt 14. janúar og fannst lík hennar í fjörunni við Selvogsvita átta dögum síðar, þann 22. janúar síðastliðinn.

Hér að neðan er hægt að hlusta á viðtalið við Margréti Valdimarsdóttur í heild sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×