Körfubolti

Hildur Björg spilar á Spáni í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir, til vinstri,  með Berglindi Gunnarsdóttur í landsliðsverkefni í sumar.
Hildur Björg Kjartansdóttir, til vinstri, með Berglindi Gunnarsdóttur í landsliðsverkefni í sumar. Mynd/Instagram
Íslenski landsliðsmiðherjinn Hildur Björg Kjartansdóttir hefur samið við spænskt lið og mun því spila á Spáni á komandi tímabili en ekki í Domino´s deild kvenna eins og útlit var fyrir.

Liðið heitir Club Baloncesto Leganés og er frá Madríd en það spilar í Liga Femenina 2. Liga Femenina 2 er næstefsta deildin á Spáni.

Hildur er ekki fyrsti íslenski landsliðsmiðherjinn sem spilar í þessari deild því Signý Hermannsdóttir lék með CB Isla de Tenerife liðinu eftir að hún útskrifaðist úr námi frá Bandaríkjunum 2003.

Hildur Björg Kjartansdóttir var búin að semja við nýliða Breiðabliks sem eru núna að missa landsliðskonu og sinn besta leikmann áður en tímabilið hefst.

„Mér fannst auðvitað leiðinlegt að fara frá Blikunum því ég er búin að eiga gott sumar hjá þeim og leið mjög vel. Ég hafði möguleika á að stökkva á svona tækifæri ef það myndi bjóðast,“ sagði Hildur í stuttu spjalli við Vísi.

Hildur Björg varð Íslandsmeistari á síðasta tímabilinu sínu með Snæfelli veturinn 2013-14 þar sem hún var með 15,3 stig og 9,9 fráköst að meðaltali í leik.

Hún hefur hefur síðan spilað með University og Texas Rio Grande Valley í bandaríska háskólaboltanum. Á lokaárinu var hún með 7,7 stig og 7,2 fráköst að meðaltali í leik.

Hildur Björg spilaði aftur með íslenska landsliðinu í sumar en hún hafði ekki spilað með liðinu vegna þess að hún var við nám í Bandaríkjunum. Hún var byrjunarliðskona í öllum leikjum landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×